Heilbrigðisstofnunum úthlutað 350 milljónum króna til tækjakaupa og tæknilausna
Á heimasíðu stjórnarráðsins segir að Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hafi ákveðið að úthluta af safnliðum fjárlaga 270 milljónum króna til tækjakaupa á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni og 80 milljónum króna til tæknilausna sem nýtast í þágu aldraðra sem búa heima en bíða eftir hjúkrunarrými og þurfa á mikilli þjónustu að halda. Heilbrigðisstofnun Vesturlands fær 70 m.kr. og Heilbrigðisstofnun Norðurlands 50 m.kr.
Hæsta úthlutunin til tækjakaupa, 70 milljónir króna, rennur til Heilbrigðisstofnunar Vesturlands vegna tækjabúnaðar fyrir liðskiptasetrið. Heilbrigðisstofnanir Norðurlands og Austurlands fá 50 milljónir króna hvor vegna kaupa á stórum tækjum í samræmi við áætlanir og brýna þörf. Hinar stofnanirnar þrjár fá samtals 100 milljónir króna sem skiptast hlutfallslega í samræmi við fjárveitinga til sjúkrasviða þeirra. Fjármunirnir skiptast á eftirfarandi hátt:
Heilbrigðisstofnun Vesturlands 70 m.kr.
Heilbrigðisstofnun Vestfjarða 23 m.kr.
Heilbrigðisstofnun Norðurlands 50 m.kr.
Heilbrigðisstofnun Austurlands 50 m.kr.
Heilbrigðisstofnun Suðurlands 48 m.kr.
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 29 m.kr.
Heilbrigðistæknilausnir fyrir aldraða í heimahúsum
Fjöldi aldraðra sem fengið hefur færni og heilsumat og bíður þess að komast á hjúkrunarheimili dvelur á eigin heimili og þarf á mikilli þjónustu að halda. Til að auka þjónustu við þennan hóp og tryggja betur öryggi einstaklinganna geta skjáheimsóknir verið mikilvæg viðbót og auk annarra tæknilausna sem þjóna sama tilgangi og stuðla einnig að betri nýtingu starfsfólks sem sinnir hjúkrun og umönnun fólks í heimahúsum. Til að ýta undir þróun og notkun lausna sem þessara hefur ráðherra ákveðið að úthluta samtals 80 milljónum króna til heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni sem skiptast svona:
Heilbrigðisstofnun Vesturlands 9,0 m.kr.
Heilbrigðisstofnun Vestfjarða 13,0 m.kr.
Heilbrigðisstofnun Norðurlands 28,0 m.kr.
Heilbrigðisstofnun Austurlands 14,0 m.kr.
Heilbrigðisstofnun Suðurlands 10,0 m.kr.
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 6,0 m.kr.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.