Háskólinn á Hólum varðveitir Sleipnisbikarinn, merkasta verðlaunagrip íslenskrar hestamennsku
Háskólanum á Hólum hefur verið falið að varðveita á milli Landsmóta hestamanna en samkomulag þess efnis var undirritað sl. föstudag í húsakynnum Söguseturs íslenska hestsins á Hólum. Það var Gunnar Þorgeirsson, formaður BÍ, sem fól rektor skólans, Hólmfríði Sveinsdóttur, að varðveita gripinn, sem sagðist þakka traustið og virðinguna sem skólanum væri sýndur.
„Við hjá Háskólanum á Hólum erum afar djúpt snortinn og stolt yfir því trausti og virðingu sem okkur er sýnd að vera falið að varðveita Sleipnisbikarinn hjá okkur á milli Landsmóta hestamanna. Sleipnisbikarinn er tvímælalaust merkasti verðlaunagripur íslenskrar hestamennsku. Hann er samofin hrossaræktarsögu hestsins rétt eins og Háskólinn á Hólum og var fyrst afhentur á landbúnaðarsýningu í Reykjavík árið 1947 og í framhaldinu á öllum Landsmótum hestamanna frá því fyrsta á Þingvöllum 1950,“ sagði Hólmfríður í ávarpi sínu.
Gunnar sagði í sinni ræðu að sú umræða hafi komið upp hvar bikarnum væri best komið eftir að Bændasamtökin fluttu í nýtt húsnæði. „Þetta er mjög viðeigandi staður og sómi sýndur að vera geymdur hér heldur en á skrifstofu í Reykjavík, sagði Gunnar sem hlakkar til að koma næsta sumar og berja bikarinn augum í sýningarskápnum sem hann mun verða geymdur í.
Fjögur kíló silfurs
Elisabeth Jansen, deildarstjóri Hestafræðideildar
og stjórnarmaður í Sögusetri íslenska hestsins á
Hólum, setti og stjórnaði athöfninni.
Hólmfríður rakti sögu Sleipnisbikarsins sem framan af var verðlaunagripur fyrir hæsta einstaklingsdæmda stóðhestinn en frá og með Landsmótinu 1958 var hann afhentur þeim stóðhesti sem fremstur stóð fyrir afkvæmi. Sagði Hólmfríður að þau megi hiklaust telja æðstu viðurkenningu sem veitt er í hrossaræktarstarfinu á Landsmótum.
„Sleipnisbikarinn, þ.e.a.s. gripurinn sjálfur, á sér reyndar miklu lengri sögu því af merkingum á honum má ráða að bikarinn hafi verið smíðaður í London um miðja 19. öld. Hann var fyrst notaður sem verðlaunagripur árið 1857 í kappreiðum í York skíri í Englandi. Kappreiðarnar nefndust Union Hunt Cup og sigraði hesturinn The Hero hlaupið og er því fyrsti handhafi bikarsins.“
Í lok seinni heimsstyrjaldarinnar er talið að íslenskur sjómaður hafi keypt bikarinn á uppboði í London en íslenska ríkið og Búnaðarfélag Íslands keyptu bikarinn síðar og skiptu kostnaðinum á milli sín. Bikarinn er mikil völundarsmíð gerður úr fjórum kílóum af silfri.
Sleipnisbikarinn er farandbikar og þeir sem hljóta hann fá að hampa gripnum við hátíðlega athöfn á Landsmóti en fá síðan aðeins að eiga mynd af bikarnum til varðveislu. Að verðlaunaathöfninni lokinni er bikarinn fluttur aftur á sinn varðveislustað þar sem hann er geymdur á öruggum stað í læstum skáp sem verður framvegis hjá Sögusetri íslenska hestsins.
Margir hafa velt því fyrir sér af hverju enskur veðhlaupahestur skreytir bikar sem veittur er besta íslenska stóðhesti hverju sinni. En skýringin er einföld, eins og saga bikarsins ber vitni um.
Í frétt Bændasamtakanna um flutning Sleipnisbikarinn kemur fram að Skuggi frá Bjarnanesi hafi fengið bikarinn fyrstur íslenskra hrossa árið 1947 á Landbúnaðarsýningu í Reykjavík. „Á þeirri sýningu var keppt í tveimur flokkum stóðhesta, vinnuhrossa og reiðhrossa og hlaut Skuggi viðurkenninguna sem besti stóðhesturinn í flokki reiðhesta. Á fyrsta landsmótinu, sem haldið á Þingvöllum, þremur árum seinna, árið 1950 var viðurkenningin veitt í annað sinn og féll það í hlut Hannesar Stefánssonar, bónda á Þverá í Skagafirði að taka á móti viðurkenningunni fyrir besta stóðhest af íslensku reiðhestakyni.
Var það hesturinn Hreinn frá Þverá sem vann sér inn viðurkenninguna, en hann er sá hestur sem oftast hlaut viðurkenninguna, alls þrisvar sinnum. Var þá reglunum breytt þannig að enginn stóðhestur getur hlotið viðurkenninguna oftar en einu sinni. Allar götur síðar hefur bikarinn verið afhentur á landsmótum, þeim stóðhesti sem stendur efstur í heiðursverðlaunum fyrir afkvæmi. Bikarinn hefur alls verið veittur 26 sinnum og má finna lista yfir þá sem hafa hlotið bikarinn hér að neðan:
Sleipnisbikarhafar
1947: Skuggi frá Bjarnanesi, eigandi: Hestamannafélagið Faxi Borgarfirði
1950: Hreinn frá Þverá, eigandi: Hannes Stefánsson, Þverá Skagafirði
1954: Hreinn frá Þverá, eigandi: Hrossakynbótabú ríkisins, Hólum í Hjaltadal
1958: Hreinn frá Þverá, eigandi: Hrossakynbótabú ríkisins, Hólum í Hjaltadal
1962: Svipur frá Akureyri, eigandi: Haraldur Þórarinsson, Syðra-Laugalandi Eyjafirði
1966: Roði frá Ytra-Skörðugili, eigandi: Hrossaræktarsamband Vesturlands
1970: Neisti frá Skollagróf, eigandi: Jón Sigurðsson, Skollagróf
1974: Blesi frá Núpakoti, eigandi: Hrossaræktarsamband Suðurlands
1978: Sörli frá Sauðárkróki, eigandi: Sveinn Guðmundsson, Sauðárkróki
1982: Hrafn frá Holtsmúla, eigandi: Félagsbúið Holtsmúla, Skagafirði
1986: Ófeigur frá Hvanneyri, eigandi: Hrossaræktarsamband Vesturlands
1990: Hervar frá Sauðárkróki, eigandi: Hrossaræktarsamband Skagfirðinga
1994: Þokki frá Garði, eigandi: Jón Karlsson, Hala
1998: Stígandi frá Sauðárkróki, eigendur: Hrossaræktarsamband A-Hún, Skagafjarðar, V-Hún og Vesturlands
2000: Orri frá Þúfu, eigandi: Orrafélagið
2002: Þorri frá Þúfu, eigandi: Indriði Ólafsson
2004: Kraflar frá Miðsitju, eigandi: Brynjar Vilmundarson
2006: Keilir frá Miðsitju, eigandi: Gunnar Andrés Jóhannsson
Mette Mannseth og Gísli Gíslason, hrossaræktendur í Þúfum í Skagafirði, stilla sér upp við Sleipnisbikarinn en hann fengu þau árið 2008 sem eigendur Hróðurs frá Refsstöðum. Fyrir framan má sjá mynd eins og Sleipnisbikarhafar fá til eignar (t.v) og viðurkenningu þá er Hannes Stefánsson, Þverá Skagafirði, fékk fyrir hestinn Hrein árið 1950 en sá hestur er sá eini sem fengið hefur bikarinn oftar en einu sinni.
2008: Hróður frá Refsstöðum, eigandi: Mette Mannseth
2011: Gári frá Auðsholtshjáleigu, eigandi: Gunnar Arnarson og Kristbjörg Eyvindsdóttir
2012: Álfur frá Selfossi, eigandi: Christina Lund
2014: Vilmundur frá Feti, eigandi: Hrossaræktarbúið Feti
2016: Arður frá Brautarholti, eigandi: Helgi Jón Harðarson og Bergsholt sf.
2018: Spuni frá Vesturkoti, eigandi: Hulda Finnsdóttir
2020: Skýr frá Skálakoti, eigandi: Guðmundur Jón Viðarsson og Jakob Svavar Sigurðsson
2022: Sjóður frá Kirkjubæ, eigandi: Alexandra Hoop
/PF
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.