Gult ástand, lélegt skyggni og versnandi akstursskilyrði
Enn ein lægðin er mætt á svæðið með hríðarveðri um allt land í dag og fram á nótt og hefur Veðurstofan hefur gefið út gular veðurviðvaranir sem þegar hafa tekið gildi á flestum svæðum. Í athugasemd veðurfræðings segir að varasamt ferðaveður verði ríkjandi og hefur veginum yfir Holtavörðu nú verið lokað. Snjóþekja eða hálka er á nokkrum leiðum Norðvestanlands en greiðfært víða, segir á heimasíðu Vegagerðarinnar.
Á spásvæði Stranda og Norðurlands vestra verður suðaustan hvassviðri eða stormur og snjókoma fram að hádegi en þá má gera ráð fyrir því að snúist í suðvestan 13-20 m/s og éljagang. Búast má við skafrenningi og takmörkuðu eða lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum. Dregur úr vindi síðdegis á morgun, fyrst vestantil.
Horfur næsta sólarhringinn á landinu öllu
Suðaustan hvassviðri eða stormur í fyrstu með snjókomu eða slyddu. Snýst í suðvestan 13-23 m/s fyrir hádegi með éljum, en styttir smám saman upp NA-til. Hvassast í éljahryðjum. Frost 0 til 5 stig.
Minnkandi suðvestanátt á morgun og dregur úr úrkomu, 3-10 m/s seinni partinn og stöku él, en byrjar að snjóa eða slydda SA- og A-til. Hiti kringum frostmark.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.