Gul veðurviðvörun tekur gildi aðfaranótt aðfangadags á Norðurlandi vestra
Á vef Veðurstofunnar segir að gul veðurviðvörun taki gildi á Norðurlandi vestra og Ströndum þann 24. des kl. 00:00 og standi yfir til kl. 22:00 sama dag. Þá verður hvöss norðanátt og snjókoma eða norðan 15-23 m/s og snjókoma vestantil á svæðinu og útlit fyrir léleg akstursskilyrði og jafnvel ófærð. Gera má ráð fyrir veðraskilum innan svæðisins og líkur eru á að austantil á svæðinu verði lengst af minni vindur og úrkoma.
Gular veðurviðvaranir taka einnig gildi á fleiri stöðum á landinu og segir að á Suðurlandi verði hvassviðri og snjókoma frá kl. 9:00 í dag, þorláksmessu, og standi yfir til kl. 01:00 aðfaranótt aðfangadags. (23 des. kl. 09:00 – 24 des. kl. 01:00) Austan og norðaustan 10-15 m/s, en 15-20 syðst. Snjókoma með köflum og mögulega skafrenningur með erfiðum aktursskilyrðum, þetta á sérílagi við undir Eyjafjöllum og á veginum um Reynisfjall.
Á Faxaflóa verður leiðindar hvassviðri og él að skella á þann 24. des. kl. 01:00 og stendur yfir til kl. 22:00 sama dag. Norðan 13-23 m/s, hvassast í vindstrengjum á Snæfellsnesi. Líkur á éljum með erfiðum akstursskilyrðum, einkum norðantil á svæðinu.
Á Breiðafirði verður norðan hvassviðri og él og tekur gul viðvörun gildi á sama tíma og á Norðurlandi vestra eða þann 24. desember kl. 00:00 og stendur yfir til kl. 22:00. Norðan 15-23 m/s og éljagangur. Erfið eða léleg akstursskilyrði og líkur á staðbundinni ófærð.
Á Vestfirðum verður norðan stormur og hríð frá kl. 23:00 þann 23. desember og á að standa til kl. 23:00 þann 24. desember. Norðan 15-25 m/s og snjókoma. Léleg akstursskilyrði og ófærð líkleg.
Það er því um að gera að skoða færð á vegum áður en haldið er af stað í ferðalag. Förum varlega í umferðinni
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.