„Grípum tækifærin verkin tala“
Norðvesturkjördæmið hefur verið að eflast mikið síðustu ár og tækifærin þar til áframhaldandi uppbyggingar eru óþrjótandi. Ég býð mig áfram fram til forystu í 1. sæti í forvali VG sem nú stendur yfir í Norðvesturkjördæmi til að fylgja fast eftir hagsmunabaráttu þessa landshluta til sjávar og sveita. Það er nauðsynlegt að skapa áfram þann jarðveg að ungt fólk leiti eftir búsetu út um land og stuðli þannig að vexti og viðgangi landshlutans.
Þó kjördæmið sé að mörgu leyti ólíkt innbyrðis þá eru þar sameiginlegir hagsmunir hvort sem fólk býr í þéttbýli eða í dreifbýli. Við höfum þrjá öfluga háskóla og háskólasetur sem brýnt er að tryggja áfram góðan rekstrargrundvöll. Möguleikar til fjarnáms og fjölgunar starfa án staðsetningar í fjarvinnslu eru miklir eins og dæmin sanna í kjördæminu þar sem mjög vel hefur tekist til og síðasta ár hefur sýnt okkur það að fjarvinnsla og fjarfundir eru komnir til að vera sem gefur möguleika á ótal atvinnutækifærum víða um land.
Á þessu kjörtímabili hefur okkur tekist undir forystu ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur að stórauka fjárframlög til innviðauppbyggingar, samgöngumála, tengivega, ljósleiðaravæðingar og jöfnun orkuverðs svo eitthvað sé nefnt. Einnig höfum við sett aukna fjármuni í heilbrigðisstofnanir og fjölgun hjúkrunarrýma og niðurgreitt heilbrigðiskostnað til almennings sem er mikilvægt og verið er að styrkja enn frekar aðgengi fólks út um land að sérfræðilæknum og geðheilbrigðisþjónustu.
Við höfum lagt mikla áherslu á að auka fjármagn til nýsköpunar og hafa framlög aukist um 70% á kjörtímabilinu. Nýbúið er að samþykkja frumvarp um opinberan stuðning við nýsköpun þar sem ég var framsögumaður á málinu í atvinnuveganefnd en þar tók málið mjög jákvæðum breytingum til hagsbóta fyrir landsbyggðirnar sem allur þingheimur samþykkti. Þar var m.a. sett á fót „Nýsköpunargátt“ sem býður uppá ókeypis ráðgjöf og stuðning fyrir frumkvöðla á landinu öllu sem er nýjung. Ég hef leitt vinnu um svokölluð „Hlutdeildarlán“ í velferðarnefnd þar sem ríkið greiðir 20% mótframlag í fyrstu íbúðarkaupum fyrir tekjulága sem styður mjög við möguleika ungs fólks. Þar lagði ég til að 20% af þessum stuðningi ríkisins væri eyrnamerktur landsbyggðunum sem var samþykkt.
Barátta mín inni á þingi hefur snúist um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu og þar hef ég náð fram dagakerfi í strandveiðum. Unnið að innviðauppbyggingu á landsbyggðunum, jöfnun orkuverðs, eflingu fjölbreytts landbúnaðar, auknu jafnrétti til náms, náttúruvernd og endurreisn heilbrigðis og velferðarkerfisins þar sem hagsmunir aldraðra, öryrkja og unga fólksins eru tryggðir. Ferðaþjónustan mun rísa á ný og þar eru möguleikarnir á áframhaldandi uppbyggingu miklir og stofnun Hálendisþjóðgarðs mun efla þá grein sbr. aðdráttarafls þjóðgarðsins á Snæfellsnesi.
Ég hef verið formaður atvinnuveganefndar sl. fjögur ár þar sem unnið hefur verið með fjölda mála á sviði sjávarútvegs, landbúnaðar, ferðaþjónustu, orkumál, skapandi greina og nýsköpunarmála. Mikil samvinna hefur verið í nefndinni og hef ég lagt mig í líma við að vinna sem best í samstöðu að úrlausn mála sem hefur borið góðan árangur.
Mótuð hefur verið landbúnaðarstefna fyrir Ísland og við höfum samþykkt aðgerðaáætlun í matvælaöryggi og vernd búfjárstofna og stofnað Matvælasjóð. Allt eru þetta aðgerðir sem eru jákvæðar fyrir tækifæri og möguleika á að efla íslenskan landbúnað til framtíðar. Mjólkuriðnaðurinn þarf að halda áfram að auka nýsköpun en gott dæmi um slíkt er úr Skagafirði þar sem mysan er fullnýtt sem afurð. Innlendur landbúnaður er í góðri stöðu til að draga úr kolefnisspori og takast á við orkuskipti og sú vinna er þegar hafin hjá greininni með stuðningi í búvörusamningum.
Ég býð áfram krafta mína og reynslu til að vinna að réttlátu samfélagi og þjóðfélagsbreytingum með sjálfbærni að leiðarljósi þar sem við byggjum á fjölbreyttu atvinnulífi og góðu aðgengi að menntun og heilbrigðiskerfi fyrir alla.
Lilja Rafney Magnúsdóttir alþingismaður og formaður atvinnuveganefndar.
Frambjóðandi í forvali VG 23 til 25 apríl.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.