Gervihnattafjarskipti á Blönduósi
Borealis Data Center og ítalska fyrirtækið Leaf Space hafa gert samning sem felst í hýsingu og rekstri á búnaði fyrir gervitunglafjarskipti. Um er að ræða samskiptabúnað, loftnetastöð og annan tæknibúnað sem sinnir móttöku og meðhöndlun gagna frá gervitunglum á sporbraut um jörðu. Gervihnattastöðin er staðsett við gagnaver Borealis Data Center á Blönduósi þar sem allur búnaður er hýstur.
Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að aðgengi að grænni orku og öruggum innviðum Borealis Data Center ásamt ákjósanlegri staðsetningu á Blönduósi geri Leaf Space kleift að þjónusta stórt svæði og eiga í samskiptum við gervitungl á norðurslóðum með sjálfbærum og öruggum hætti en Leaf Space sérhæfir sig í samskiptum við gervihnetti og þjónustar fyrirtæki sem þurfa aðgengi að gervihnöttum á sporbaug um jörðu.
„Staðsetning gervihnattarstöðvarinnar á Íslandi er mjög góð og leyfir okkur að ná yfir stórt svæði á norðurslóðum. Góðar nettengingar og aðgengi að gagnaversþjónustu Borealis er mikilvægur þáttur fyrir okkar heildarlausn. Ný stöð á Íslandi er stórt skref í að mæta þörfum viðskiptavina okkar hvað útbreiðslu varðar og sjálfbærni ásamt því að auka þjónustu okkar á heimsvísu,“ segir Jonata Puglia, forstjóri hjá Leaf Space.
Lausn Leaf Space á Blönduósi er hönnuð með það í huga að þjónusta gervihnetti á norðurslóðum. Stöðin er hluti af neti Leaf Space og þéttir útbreiðslusvæðið á norðurhveli jarðar og lágmarkar biðtíma gagna frá gervihnöttum í náinni samvinnu við Borealis Data Center .
„Það er ánægjulegt að bæta við geimgagnavinnslu á Blönduósi og er uppbyggingin með Leaf Space staðfesting á þeim kostum og innviðum sem staðsetningin býður upp á. Borealis er nú komið í þá aðstöðu að þjónusta vaxandi umsvif í geimnum ásamt nýjum samstarfsfélögum hjá Leaf Space. Stuðningur frá heimamönnum og sveitafélaginu hefur skipt sköpun fyrir okkar uppbyggingu á svæðinu, segir Björn Brynjúlfsson, forstjóri Borealis Data Center.
Í tilkynningunni kemur fram að Borealis Data Center rekur tvö gagnaver hér á landi, á Blönduósi og Fitjum í Reykjanesbæ, með áherslu á sjálfbæra gagnaversþjónustu. Viðskiptavinir félagsins eru fyrst og fremst erlend fyrirtæki sem leggja ríka áherslu á að lágmarka kolefnisfótspor af starfsemi sinni. Slík markmið falla vel að aðstæðum hér á landi þar sem samkeppnisforskot Borealis á önnur erlend gagnaver byggir á öruggri staðsetningu, grænni orku, afhendingaröryggi og kalda loftinu sem hentar vel til kælingar á tölvubúnaði.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.