Garðfuglakönnun fyrir alla - landið allt

Skógarþröstur. Ljsm. Sindri Skúlason,
Skógarþröstur. Ljsm. Sindri Skúlason,

Hin árlega garðfuglakönnun Fuglaverndar hefst nk. sunnudag, 30. október, en tilgangur könnunarinnar er að fá upplýsingar um fuglategundir og fjölda fugla sem halda sig í görðum á Íslandi yfir vetrarmánuðina og að hvetja fólk til að líta á fuglalífið í sínu nánasta umhverfi.

Í tilkynningu frá Fuglavernd segir að það skiptir ekki máli þó fólk byrji aðeins seinna að telja eða hætti fyrr – aðalatriðið er að vera með. Allt fuglaáhugafólk er hvatt til að kynna sér efnið og taka þátt, jafnt fullorðnir sem börn. Þeir sem fóðra fugla í garðinum sínum eru í góðri aðstöðu og hvattir til að taka þátt.

Á heimasíðu Fuglaverndar kemur fram að garðfuglakönnun sé árlegur viðburður Fuglaverndar sem snýst um að telja fugla í garðinum sínum. „Fuglar heimsækja mest þá garða þar sem fóður stendur til boða. Könnunin er ætluð öllum sem hafa áhuga á fuglum og er ekki ýkja flókin þó hún virðist vera það við fyrstu sýn,“ segir á fuglavernd.is sem ítrekar hvatningu um þátttöku. „Endilega takið þátt! Því fleiri sem taka þátt þeim mun betri upplýsingar höfum við um garðfugla. Við þurfum fleiri en 20 garða. Þetta er alls ekki jafn flókið og virðist við fyrstu sýn!“

Allar upplýsingar má finna á heimasíðu Fuglaverndar, sjá HÉR.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir