Fuglaflensa í skúmum og svartbökum – enn smithætta fyrir alifugla
Skæð fuglaflensa greinist enn í villtum fuglum hér á landi og telur Matvælastofnun því ekki óhætt að aflétta þeim varúðarráðstöfunum sem fyrirskipaðar voru í mars á þessu ári. Á heimasíðu stofnunarinnar segir að faraldurinn sé einnig viðvarandi annars staðar í Evrópu og víðar. Enn er mikilvægt að fólk tilkynni um veika og dauða fugla til MAST.
Á mast.is kemur fram að nú í lok október hafi flestar tegundir farfugla yfirgefið landið og því sé fuglastofninn að verða samsettur af þeim tegundum sem dvelja hér yfir veturinn. „Þeir sjófuglar sem hafa orðið verst úti af völdum fuglaflensu í ár, eru flestir komnir út á sjó eða til annarra vetrardvalastaða. Þar af leiðandi hefur dregið úr smithættu frá þeim, en hún er þó ekki yfirstaðin. Súlur halda sig að hluta til við strendur landsins yfir vetrartímann og mun skýrast með tímanum hvernig faraldurinn þróast í þeim, en mjög fáar ábendingar hafa borist í október frá almenningi um dauðar súlur.
Skæð fuglaflensa greindist nýverið í svartbökum á Suðurnesjum, nánar til tekið í Sandgerði og Garði, en vart hafði orðið við aukin dauðsföll í þeirri tegund í september. Þetta er áhyggjuefni þar sem svartbakurinn er staðfugl og er í hópum um þetta leyti árs með öðrum tegundum máfa sem einnig dvelja hér allt árið. Það má þess vegna reikna með að smithætta sé áfram til staðar fyrir aðra villta fugla og alifugla út frá þeim.
Einnig greindist skæð fuglaflensa í skúmum í september. Fjöldi máfa og skúma settust niður veikir á varðskip Landhelgisgæslunnar og drápust þar. Sýni voru tekin úr fjórum skúmum úr þessum hópi og greindist fuglaflensa í þeim öllum.
Í ljósi þessarar stöðu getur Matvælastofnun ekki mælt með afléttingu á þeim varúðarráðstöfunum sem kveðið er á um í auglýsingu nr. 380/2022 og birt var í Stjórnartíðindum 30. mars á þessu ári. Því þurfa fuglaeigendur áfram að hafa fugla sína í húsum eða lokuðum yfirbyggðum gerðum. Tilgangur ráðstafananna er að vernda alifugla og aðra fugla í haldi gegn fuglaflensusmiti frá villtum fuglum. Rétt er að geta þess að ráðstafanirnar gilda ekki um dúfur,“ segir í tilkynningu Matvælastofnunar en nánar má fræðast um málið HÉR.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.