Frístundahús og bílskúrar þurfa ekki lengur byggingarleyfi
Ný reglugerð hefur tekið gildi sem ætlað er að straumlínulaga leyfisveitingaferlið við húsbyggingar. Reglugerðin kveður á um upptöku nýs kerfis við flokkun mannvirkja, sem hafa mun bein áhrif á eftirlit sveitarfélaga, meðferð umsókna og útgáfu leyfa vegna allrar mannvirkjagerðar. Á heimasíðu HMS segir að nýja flokkunarkerfið þýði að bygging einfaldari mannvirkja mun ekki lengur vera háð útgáfu byggingarleyfis, heldur nægir að hafa svokallaða byggingarheimild sem mun draga verulega úr flækjustigi í slíkum framkvæmdum.
Breytingin er í takt við áform um einföldun stjórnsýslu byggingamála sem fram koma í nýjum stjórnarsáttmála. Framundan er frekari endurskoðun m.a. með hliðsjón af tillögum OECD sem gagnrýndi fyrra kerfi leyfisveitinga í mannvirkjagerð í samkeppnismati sínu á íslenskum byggingariðnaði á síðasta ári.
Ákvæði sem varða palla, girðingar, skjólveggi og heita potta einfölduð
Markmið með setningu reglugerðarinnar er að draga úr kostnaði við framkvæmdir og gera eftirlit með mannvirkjagerð skilvirkara og einfaldara með því að flokka mannvirki, m.a. eftir stærð, flækjustigi hönnunar og samfélagslegu mikilvægi. Þannig verður umsóknarferli byggingarleyfis og eftirlit með mannvirkjagerð sniðið að hverjum flokki fyrir sig á þann hátt að umfangslítil mannvirkjagerð verður mun einfaldari í framkvæmd sem ætti að leiða til lægri byggingarkostnaðar.
Mannvirki verða flokkuð eftir umfangi, eðli og samfélagslegu mikilvægi í þrjá umfangsflokka:
Í umfangsflokk 1 fellur einföld mannvirkjagerð, s.s. bílskúrar og frístundahús, sem undanþegin verður byggingarleyfi en háð byggingarheimild, sem er nýtt hugtak í byggingarreglugerð. Í þessum flokki verður t.a.m. hvorki skylt að skila séruppdráttum við umsókn né er gerð krafa um ábyrgðaryfirlýsingu iðnmeistara.
Í umfangsflokk 2 fellur mannvirkjagerð sem felur í sér flestar almennar framkvæmdir, s.s. einbýlishús, fjölbýlishús og atvinnuhúsnæði og verður áfram háð byggingarleyfi.
Í umfangsflokk 3 falla mjög flóknar eða umfangsmiklar framkvæmdir, sem hafa jafnvel mikið samfélagslegt mikilvægi, s.s. sjúkrahús, skólar og verslunarmiðstöðvar. Þessi mannvirkjagerð verður háð byggingarleyfi og er fyrirhugað að gera ítarlegri kröfur um eftirlit með hönnun þeirra en áður hefur verið.
Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra segist telja um mikilvægt skref að ræða á þeirri leið sem hefur verið mörkuð um að einfalda verulega alla stjórnsýslu og leyfisveitingar. „Það hefur verið kallað eftir því lengi að minnka óþarfa flækjustig í einföldum framkvæmdum. Við þurfum að nýta skynsamlega þá fjármuni sem við leggjum í eftirlit með mannvirkjum frekar en að senda fólk út og suður í að afla leyfa til að reisa einfalda skjólveggi eða girðingar. Ég tel að með sameiningu stjórnsýslu húsnæðis-, skipulags- og byggingarmála í einu ráðuneyti, sem nú er að verða að veruleika, verði hægt að stíga fleiri skref til að einfalda leyfisveitingar, auka stafræna upplýsingagjöf og þannig lækka húsnæðisverð, sem skiptir höfuðmáli fyrir almenning,“ segir Sigurður Ingi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.