Frelsið og jörðin
Frelsið er grundvallarþáttur í stefnu Sjálfstæðisflokksins. Frelsi til búsetu, frelsi til mennta, frelsi til atvinnu, frelsi til viðskipta og frelsi til athafna. Innifalið í athafnafrelsinu m.t.t. hinna dreifðu byggða landsins, skyldi vera frelsi til að stunda þá búgrein sem hentar viðkomandi bújörð og þar sem viðkomandi ábúandi getur nýtt og virkjað menntun sína, reynslu og áhugasvið.
Saga og samtíð
Um langan aldur hafa tvær búgreinar, sauðfjárrækt og mjólkurframleiðsla, fengið stuðning frá hinu opinbera og fyrir nokkrum árum bættist grænmetisframleiðsla í pottinn. Er það vel og eru bændur þessara greina síst ofhaldnir af sínu enda hefur stuðningur við íslenskan landbúnað lækkað úr 5% af landsframleiðslu árið 1990 í 0,5% af landsframleiðslu á síðasta ári. Ef hlutfallslega sami stuðningur væri í dag við byggðir og landbúnað væri verið að greiða um 150 milljarða árlega til þessa málaflokks en ekki 15 milljarða. Þannig er ljóst að auka þarf stuðning við landbúnað og til þess hníga mörg rök.
Upprunalega var styrkurinn hugsaður til að tryggja nægjanlegt framboð matvæla og jafna lífskjör landsmanna. Margt fleira mætti nefna t.a.m. ef vilji stendur til þess að mannauður, framleiðsluhús, tækjakostur og landrými séu til staðar í mótbyr, t.d. í efnahagskreppu eða heimsfaraldri, þá þarf líka að sýna sig pólitískur kjarkur til að standa með landbúnaðinum á lensinu þannig að sömu þættir séu einnig til staðar þegar meðbyr er í þjóðfélaginu. Þá er mikil skammsýni fólgin í því að tollvernd á landbúnaðarafurðum sé aflétt í vaxandi mæli en landbúnaðurinn liggi óbættur hjá garði. Áhættan vegna okkar búfjár er eitt, áhætta vegna sýklalyfjaónæmis okkar landsmanna er annað. Hitt ber einnig að hafa í huga að ef upp koma sjúkdómar í búfjárstofnum erlendis og innflutningur er felldur niður í einni svipan þá er erfitt að bregðast við ef búið er að svelta landbúnaðinn í lengri tíma og skera inn að beini.
Við þurfum því að styðja myndarlega við landbúnaðinn þannig að allir meginþættir framleiðslunnar séu til staðar ef bæta þarf í með skömmum fyrirvara. Þá er afar ósanngjarnt að landbúnaðurinn sé látinn taka á sig höggið af afléttingu tolla einn og óstuddur og bótalaust. Eðlilegast væri að bændum væri bættur skaðinn sem af tollaafléttingu hlýst.
Þríþættur stuðningur
Sá stuðningur, sem er við íslenskan landbúnað í dag, má meta með þrenns konar hætti sé horft vítt og breitt yfir sviðið. Í fyrsta lagi stuðningur við byggð og búsetu til sveita og þá um leið við viðkomandi sveitarfélög og þjónustufyrirtæki á svæðinu. Í öðru lagi stuðningur við framleiðslu á hreinum, hollum og næringarríkum matvælum með áherslu á innanlandsmarkað. Í þriðja lagi stuðningur við margháttaða menningu frá ystu nesjum til innstu dala.
Sveitamenning er öðru vísi en borgar- og bæjarmenning það þekkja þeir sem reynt hafa og upplifað hvoru tveggja. Hvort hún er betri eða verri skiptir ekki máli í þessu samhengi heldur mikilvægi þess að hún er öðruvísi þannig að þegar við erum skapa verðmæti fyrir land og þjóð þá erum við um leið að viðhalda og bæta við annars konar menningu um leið. Verkefnin, viðfangsefnin og lífsbaráttan eru öðru vísi. Önnur saga, annað tungutak, annað verðmætamat, annars konar félagsstarf, önnur þekking á landi og staðháttum bæði í lágsveitinni og eins til hálsa, heiða og öræfa. Þannig skyldum við ávallt bera virðingu fyrir margskonar menningu í þjóðlífinu og leyfa byggð að blómstra um allt land.
Stuðningur breikkaður – frelsið virkjað
Hér hefur verið gerð stutt grein fyrir þeim stuðningi sem íslenskur landbúnaður hefur notið og hvað hefur fengist í staðinn, sumt metið til fjár annað ekki. Í framhaldi af því skal sett fram sú tillaga í frelsisanda að athafnafrelsi til sveita verði aukið. Hugað verði að því að jafna réttindi til stuðnings við landbúnað, ekki með því að taka frá einum til að veita öðrum heldur með því að breikka réttindagrunninn. Ýtt verði undir þetta athafnafrelsi með grunnstuðningi af hálfu hins opinbera við hverskyns landbúnað og jarðanýtingu þannig að hver og einn ábúandi virki sína hæfileika og áhugasvið, menntun og reynslu.
Mikilvægt er að stuðningur við sauðfjárrækt, mjólkurframleiðslu og garðyrkju haldist en til viðbótar geti aðrir þeir bændur með lágmarksbústærð og sýna fram á nýtingu jarða s.s. hrossarækt (kjötframleiðsla, ræktun, tamning, sala, blóðmerahald, hestaleiga o.fl.), kornrækt og skógrækt einnig notið stuðnings. Einnig gætu ferðaþjónustubændur fallið þarna undir að því tilskyldu að þeir gætu sýnt fram á sannarleg landbúnaðarnot á jörðinni. Þessi ráðstöfun myndi hafa mikil og jákvæð margfeldisáhrif á byggðirnar, samfélögin og sveitarfélögin á hverjum stað og myndi auk þess efla verslun og þjónustu og tvímælalaust auka atvinnu til muna.
Byggingarskylda jarða – forkaupsréttur sveitarfélaga
Samhliða þeirri breikkun á stuðningi til landbúnaðar, sem hér er talað um að framan, þyrfti gera þá breytingu á jarðalögum að koma á byggingarskyldu byggðra og húsaðra jarða. Það innifelur að allar byggðar og húsaðar jarðir verði búsetuskyldar og nytjaskyldar. Land verður dýrmætara vítt og breitt um heim með hverju árinu sem líður sérstaklega m.t.t. fólksfjölgunar, sem veldur því að sífellt meira af ræktuðu eða ræktanlegu landi fer undir íbúabyggð. Þess vegna er mikilvægt að bújarðir á okkar strjálbýla landi séu nytjaðar en ekki klukkaðar, keyptar og lagðar í eyði.
Ljóst er að öllum jörðum fylgja réttindi og skyldur. Á stundum virðist eins og aðeins sé gætt að réttindunum en ekkert skeytt um skyldurnar. Á þessu þarf að skerpa t.a.m. varðandi afréttalög og girðingalög og jafnvel skoða að skeyta þeim saman við jarðalög. Skerpa þarf á skyldum þeirra sem sitja og eiga jarðir og rétt að hafa í huga í því samhengi að leikreglur íbúðareigenda í þéttbýlinu eru mjög skýrar. Engum dettur lengur í hug efast um skyldur þeirra sem búa í fjölbýlishúsum að hirða sameignina og sinna viðhaldi eigna sinna, til að viðhalda verðmætum og eiga gott samfélag. Jarðir og hirðing við þær eru í eðli sínu samfélagslegt verkefni.
Meðfram áherslu á byggingarskyldu bújarða þyrfti að endurvekja forkaupsrétt sveitarfélaga í jarðalögunum þannig að sveitarfélög geti gengið inn í hæsta boð á rökstuddum og málefnalegum grundvelli. Með þessum tveimur aðgerðum, byggingarskyldu jarða og forkaupsrétti sveitarfélaga, væri stigið stórt skref í áttina til þess að tryggja búsetu í sveitum og víðtæk landbúnaðarafnot áfram á jörðum til hagsbóta fyrir samfélag og þjóðfélag.
Magnús Magnússon,
sóknarprestur á Hvammstanga og hrossabóndi á Staðarbakka II,
sveitarstjórnarfulltrúi og byggðarráðsmaður Húnaþings vestra og
frambjóðandi í 3.-4. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.