Frambjóðendur Norðvesturkjördæmis í sviðsljósinu :: Valgarður Lyngdal Jónsson Samfylking

Hvar hef ég séð þennan áður. Jú, alveg rétt, í Útsvarinu! Já, Valgarð kannast margir við úr þeim ágætu spurningaþáttum sem sýndir voru á RÚV fyrrum. Hann starfar sem kennari og bæjarfulltrúi á Akranesi, og nú oddviti Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi.

„Ég bý á Akranesi ásamt eiginkonu minni Írisi Guðrúnu Sigurðardóttur og eigum við þrjú börn, þau Hlín Guðnýju, Jón Hjörvar og Hrafnkel Vála. Einnig býr hin virðulega tík Týra á heimilinu,“ segir Vallgarður. Tvö eldri börnin eru flogin úr hreiðri og á síðasta ári eignuðust þau Hlín Guðný og sambýlismaður hennar, Ágúst Heimisson, soninn Jón Tinna sem er sannkallaður augasteinn afa síns og ömmu.

Valgarður fæddist á Akranesi árið 1972 og ólst upp við sveitastörf á búi foreldra sinna að Eystra-Miðfelli á Hvalfjarðarströnd. Föðurættin á uppruna sinn á Akranesi, í Borgarfirði og í Miðfirði en móðurættin kemur frá Árneshreppi á Ströndum. „Ég gekk í grunnskóla að Heiðarskóla í Leirársveit, útskrifaðist frá Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi árið 1992 og lauk námi frá Kennaraháskóla Íslands 1996. Kennsluferilinn hóf ég á Patreksfirði þar sem ég bjó í þrjú ár. Síðan þá hef ég starfað við kennslu og stjórnun í grunnskólum í Reykjavík, á Flúðum í Hrunamannahreppi og síðan árið 2003 á Akranesi þar sem ég hef starfað við báða grunnskóla bæjarins en er nú umsjónarkennari á unglingastigi Grundaskóla. Um tveggja ára skeið starfaði ég við fræðslu- og kynningarmál hjá Orkuveitu Reykjavíkur auk þess sem ég kenndi um skeið kennslufræði á námskeiðum fyrir flugkennara við Flugskóla Íslands.“

Valgarður fór fyrst í framboð fyrir Samfylkinguna á Akranesi árið 2006 og sat þá um tíma í menningar- og safnanefnd bæjarins. Hann tók sæti í bæjarstjórn eftir kosningarnar 2014, sat í minnihluta það kjörtímabil en tók við oddvitasæti listans fyrir kosningarnar 2018.

„Í þeim kosningum fékk Samfylkingin ríflega 30% atkvæða á Akranesi, þrjá menn kjörna í bæjarstjórn og höfum við starfað í meirihluta á yfirstandandi kjörtímabili ásamt Framsókn og frjálsum. Við höfum notað tímann vel á þessu kjörtímabili og haldið vel utan um samfélag í örum vexti, með félagshyggju og styrk samfélagsins að leiðarljósi.

Ég hef alltaf verið félagshyggju- og jafnaðarmaður. Ég trúi því að sameinuð séum við alltaf sterkari en sundruð, að samvinna sé árangursríkari en samkeppni. Þess vegna býð ég nú fram krafta mína fyrir hönd Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi,“ segir hann.

Pólitík

Hvers vegna ættu kjósendur í Norðvesturkjördæmi að setja krossinn hjá þér?
„Kjósendur í Norðvesturkjördæmi ættu að kjósa Samfylkinguna vegna þess að við leggjum fram skýra og ábyrga kosningastefnu, byggða á klassískum gildum jafnaðarmanna. Við segjum nákvæmlega hvað við ætlum að gera strax og hver markmið okkar eru til lengri tíma, og það sem meira er, við gerum grein fyrir því hvernig við ætlum að fjármagna okkar aðgerðir. Stefna okkar er þannig ábyrg og lýsir markmiðum um aukinn jöfnuð og sanngjarnari skiptingu bæði byrða og gæða í okkar góða samfélagi.“ Valgarður segir Samfylkinguna bjóða sig fram til að sitja í ríkisstjórn á næsta kjörtímabili en ekki til að vera hávær minnihluti á Alþingi. „Við erum skýr og augljós valkostur gegn núverandi stjórnarflokkum.“

Hvaða máli værir þú vís með að setja á oddinn náir þú kjöri?
„Í meirihluta á Akranesi höfum við beitt okkur fyrir uppbyggingu á ódýru og öruggu leiguhúsnæði í samstarfi við verkalýðshreyfinguna, leigufélag aldraðra og fleiri aðila. Víða um kjördæmið er orðin veruleg þörf á uppbyggingu húsnæðis, meðalaldur fasteigna er óvíða hærri en hér og skortur á húsnæði stendur vexti samfélaganna fyrir þrifum. Hvort sem byggt er til að leigja eða selja, þá þarf að gera átak í uppbyggingu húsnæðis, ekki aðeins á höfuðborgarsvæðinu heldur um allt land,“ segir hann.

Annað atriði sem Valgarður nefnir er heilbrigðisþjónustan: „Við horfum nú upp á það að heilbrigðisstofnanir víða um land bregðast við hagræðingarkröfum með því að leggja niður ýmsa þjónustu og afleiðingin er sú að þjónustan sogast öll til landspítalans. Við verðum að stöðva þessa þróun, bæta hag heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni og tryggja fólki heilbrigðisþjónustu í heimabyggð.“

Valgarður nefnir líka vegamál, og bendir á að ekkert kjördæmi eigi eins marga kílómetra af gömlum og illa förnum malarvegum en okkar. Einnig setur Samfylkingin fram þá stefnu að veiðigjöld verði hækkuð, með sérstöku álagi á stærstu útgerðir, sem afla yfir fimm þúsund þorskígildistonnum á ári, og leggst þannig aðeins á um tuttugu stærstu fyrirtækin. „Aukin sanngirni í sjávarútvegi, þar sem þjóðin fær eðlilegan arð af auðlindinni, er svo verkefni til lengri tíma. Að lokum mun ég ávallt leggja áherslu á að haldið verði áfram með vinnu að nýrri stjórnarskrá á grunni þjóðaratkvæðagreiðslunnar árið 2012.“

Valgarður sér fyrir sér að þessi mál náist fram með samhentu átaki allra þingmanna Samfylkingarinnar og nýrri ríkisstjórn eins og önnur áherslumál þeirra, svo sem hærri barnabætur og kjarabætur fyrir öryrkja og eldri borgara. „Við leggjum m.a. fram tillögur um hærra veiðigjald, eins og áður segir, bættar skattrannsóknir og stóreignaskatt á hreina eign umfram 200 milljónir. Það sér það hver maður, að ekkert venjulegt fólk á 200 milljónir í hreina eign og þetta er því skattkerfisbreyting sem snertir aðeins þau 2-3% þjóðarinnar sem eiga mest en skila sér í bættum hag þeirra sem minnst hafa, aldraðra, öryrkja og barnafólks.“

Hvað telur þú að brenni helst á kjósendum á Norðurlandi vestra?
„Ég held að heilbrigðismálin séu mjög aðkallandi, því fólk er farið að finna verulega fyrir því hvernig þjónustan dregst saman og fólk hefur þá engan kost annan en að sækja þjónustuna suður á Landspítala. Vissulega þarf að auka framlög til heilbrigðismála, en það þarf líka að taka til í kerfinu þannig að það fyrst og fremst þjóni þeim sem á því þurfa að halda.

Skortur á innviðum brennur líka á fólki. Hér þarf víða að fara í brýnar vegbætur og raforkumálin á Vestfjörðum þarf að leysa, því þar er skortur á aflgetu og afhendingaröryggi þegar farinn að standa uppbyggingu atvinnulífs fyrir þrifum.“

Valgarður segir einnig að hann trúi því að loftslagsmálin standi jafn nærri kjósendum hér eins og í öðrum kjördæmum. „Þetta er kannski ekki alltaf það fyrsta sem fólk nefnir, en loftlagsvandinn er stærsta úrlausnarefnið sem stjórnmálamenn á heimsvísu standa frammi fyrir og þar er nú þörf á alvöru aðgerðum.“

„Jafnaðarhugsjónin er auðlind,“ útskýrir Valgarður, því hún feli það í sér að allir hafi jafnan rétt til að njóta styrkleika sinna en vinnur gegn sóun á mannauði og hæfileikum. „Jafnaðarstefnan stuðlar að samheldni, samvinnu, trausti og mannvirðingu en vinnur gegn mismunun, skorti og sóun. Bestu samfélög heims hafa verið byggð upp á grunni þessarar stefnu og slíkt samfélag getum við byggt upp hér á Íslandi einnig, því það er nóg til.“

Léttari spurningar

Hvaða dægurlag lýsir þér best og af hverju?
-Here Comes the Sun með Bítlunum, því ég er bjartsýnn að eðlisfari, trúi á það góða í fólki og er sannfærður um að með bjartsýni og velvild að vopni getum við gert stórkostlega hluti og byggt upp fyrirmyndarsamfélag á okkar góða landi.

Hvert er helsta afrek þitt fyrir utan pólitíkina?
-Ég hef upplifað mín stærstu afrek í gegnum starf mitt sem kennari, þegar ég sé nemendur mína öðlast trú á sjálfa sig og sína hæfileika og blómstra í því sem þau velja að taka sér fyrir hendur. Ég verð líka að nefna þátttöku mína í spurningaþáttunum Útsvari þar sem ég keppti fyrir hönd Akraness. Það var skemmtilegt og gefandi viðfangsefni og ég sakna þeirra þátta úr sjónvarpsdagskránni.

Þú heldur matarboð og auk vina þinna máttu bjóða einni persónu sem þú alla jafna hittir aldrei. Hver myndi það vera og af hverju býður þú henni?
-Ég myndi bjóða Guðna Th. Jóhannessyni forseta, því hann kemur mér fyrir sjónir sem fróður og víðlesinn maður sem kann margar sögur og er góður í að segja þær. Ég held líka að við deilum þeim gildum sem byggja á bjartsýni, velvild og trú á hið góða í fólki.

Hvert er aðaláhugamál þitt?
-Samverustundir með fjölskyldunni eru mitt allra stærsta áhugamál. Fjölskyldan er það allra dýrmætasta í lífinu og ekkert er mikilvægara en að eiga samheldna fjölskyldu þar sem ríkir ást og virðing.

Jafnvægisspurningar

Hvar á skalanum frá 0 og upp í 10 þykir þér eftirfarandi málefni vera aðkallandi?

Ísland gangi í ESB 6
Fá splunkunýja stjórnarskrá 10
Veita bátum undir 30 tonnum algjörlega frjálsar handfæraveiðar 7
Aukinn einkarekstur í heilbrigðiskerfinu 0
Lækka almenna skatta 9

Hækka skatta á stóreignafólk og stórútgerðir 9
Stokka landbúnaðarkerfið upp 5
Fleiri opinber störf án staðsetningar 9
Afnema alfarið krónu á móti krónu skerðingu öryrkja og aldraðra 10
Banna alfarið vélar og farartæki sem brenna jarðeldsneyti 10 -Þegar tími er kominn til þess.

Lokaspurning

Hvernig gerum við lífið betra?
Með því að endurskoða samfélagsgerðina og byggja samfélagið okkar upp með hugmyndir og gildi jafnaðarmanna að leiðarljósi.

 ----

Nú stendur kosningabarátta frambjóðenda til Alþingis sem hæst en kosningar fara fram nk. laugardag. Af því tilefni fékk Feykir frambjóðendur Norðvesturkjördæmis til að svara misgáfulegum spurningum og kynna sig og stefnumál sín í kosningablaði sem kom út í síðustu viku.
Eins og gefur að skilja er forvitnast um pólitíkina en að auki eru nokkrar spurningar í léttari kantinum. Lokaspurningin vísar svo til slagorða framboðsins eða flokksins sem þeir standa fyrir. Að sjálfsögðu tóku þau öll vel í umleitanir blaðsins þó mikið væri að gera á öllum vígstöðvum á lokasprettinum.
Vonandi verða lesendur einhvers vísari um frambjóðendurna tíu og nái að kynnast þeim þó ekki væri nema lítillega og þau mál sem þeir vilja setja á oddinn nái þeir kjöri þann 25. september nk.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir