Frambjóðendur Norðvesturkjördæmis í sviðsljósinu :: Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir Sjálfstæðisflokkur

Stöðu ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir gegnt síðan í janúar 2017 og dómsmálaráðherra frá mars til september 2019. Hún hlaut kjör til Alþingis fyrir Norðvesturkjördæmi 2016 og var kjörin varaformaður Sjálfstæðisflokksins á landsfundi flokksins 2018.

Þórdís Kolbrún er fædd og uppalin á Akranesi, gift Hjalta Sigvaldasyni Mogensen, lögmanni, og saman eigum þau tvö börn, Marvin Gylfa fæddur 2012 og Kristínu Fjólu 2016. Faðir hennar er Gylfi R. Guðmundsson þjónustustjóri og móðir Fjóla Katrín Ásgeirsdóttir sjúkraliði. „Ég er stúdent frá Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi og var í skiptinámi á vegum AFS í Vínarborg einn vetur. Ég lauk BA og ML prófi í lögfræði frá HR og stundaði Erasmus-skiptinám við Universität Salzburg. Eftir að hafa starfað sem framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðisflokksins, stundakennari í stjórnskipunarrétti við lagadeild HR og aðstoðarmaður Ólafar Nordal innanríkisráðherra sóttist ég eftir þingsæti haustið 2016.“

Pólitík

En hvers vegna ættu kjósendur að hafa hana í huga þegar komið er inn í kjörklefana?
„Vegna þess að við höfum á að skipa öflugu og reynslumiklu fólki á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi með skýra sýn, ábyrga nálgun og trúverðugleika. Við vitum að ábyrg efnahagsstjórn er forsenda þess að lífskjör á Íslandi batni enn frekar. Að loftslagsmál og orkumál verða ekki skilin að, enda eru orkuskiptin helsta framlag Íslands til umhverfismála. Staða Íslands í orkumálum er öfundsverð og gefur ómetanleg tækifæri til að vera leiðandi í grænni orkubyltingu, hverfa frá jarðefnaeldsneyti, taka upp umhverfisvænni orkugjafa og byggja upp ný atvinnutækifæri samhliða út um allt land. Hér eru gríðarleg tækifæri fyrir landbúnað sömuleiðis.“

Þórdís Kolbrún segir að uppbygging ljósleiðara í dreifðari byggðum hafi verið unnin með nýrri nálgun í samvinnu við svæðin sem hafi bætt samkeppnisstöðu svæðanna mikið og aukið tækifæri landsbyggðar verulega.

„Nú er komið að því að tryggja það sama í byggðalögum sem ekki eru komin með sömu innviði með nýrri nálgun sem við viljum hrinda í framkvæmd. Með þessu verða störf án staðsetninga staðreynd, ekki einungis hin opinberu störf, heldur störf almennt. Þar sem fólk flytur aftur heim og tekur starfið með sér eða býr það til í sinni heimabyggð. Við höfum stutt við þessa þróun og munum gera það áfram. Við ætlum í alvöru átak við að byggja upp tengivegi þar sem rauði þráðurinn er aftur þessi samvinna ríkis og svæðanna sjálfra. Að umbreyta eignum ríkisins í raunverulega fjárfestingu innviða er ein leið til að fjármagna innviðauppbyggingu. Frekari samvinna ríkis og svæðanna sjálfra í heilbrigðis- og öldrunarþjónustu mun leiða af sér bætta þjónustu, aukið valfrelsi og frekari umsvif heim í hérað. Slík samvinna, skýr sýn og raunverulegur vilji til að hugsa hluti upp á nýtt og stórauka nýsköpun og tækni á öllum sviðum gefur okkur færi á að sækja fram á öllum vígstöðum. Það ætlum við að gera saman,“ segir hún.

Betri innviðir, betri þjónusta og einfaldari kerfi, telur Þórdís Kolbrún að brenni helst á kjósendum á Norðurlandi vestra. „Það sem ríkið segist ætla að sinna, því sé almennilega sinnt, að heilbrigðisþjónusta sé til staðar og samskipti við hið opinbera séu einfaldari og skilvirkari. Fjölbreyttari atvinnutækifæri og grunnur lykilatvinnuvega svæðisins sé treystur.“

Léttari spurningar

Hvaða dægurlag lýsir þér best og af hverju?
-Allavega ekki „Bláu augun þín“!

Hvert er helsta afrek þitt fyrir utan pólitíkina?
-Að eignast og ala upp börnin mín.

Þú heldur matarboð og auk vina þinna máttu bjóða einni persónu sem þú alla jafna hittir aldrei. Hver myndi það vera og af hverju býður þú henni?
-Obama eða Beyoncé, helst bæði. Við hefðum nóg til að tala um og hann virkar bæði hress og svalur.

Hvert er aðal áhugamál þitt?
-Heitir og kaldir pottar, gönguferðir, útlönd og stjórnmál.

Jafnvægisspurningar

Hvar á skalanum frá 0 og upp í 10 þykir þér eftirfarandi málefni vera aðkallandi?

Ísland gangi í ESB :: 0

Fá splunkunýja stjórnarskrá :: 0. -Vinna við afmarkaðar breytingar á stjórnarskrá stóð yfir allt þetta kjörtímabil, við tókum þátt í þeirri vinnu af heilindum en ekki náðist að klára þá vinnu. Breytingar á stjórnarskrá þarf að gera í sátt og af mikilli yfirvegun og vandvirkni. Pólitísk deiluefni á almennt að takast á um í almennri stefnumörkun og breytingum á lögum, ekki stjórnarskrá.

Veita bátum undir 30 tonnum algjörlega frjálsar handfæraveiðar :: -Sjálfbærar veiðar eru ekki umsemjanlegar, þess vegna er ekki hægt að gefa einkunn.

Aukinn einkarekstur í heilbrigðiskerfinu :: 10. -Einkarekstur er ekki markmið í sjálfu sér heldur leið að öflugra heilbrigðiskerfi þar sem við nýtum krafta allra ekki bara sumra með fjármunum skattgreiðenda til að tryggja aðgang allra óháð efnahag, búsetu, aldri eða aðstæðum.

Lækka almenna skatta :: 10

Hækka skatta á stóreignafólk og stórútgerðir :: -Ísland er háskattaríki. Stóreignaskattur er óskilvirk leið sem langflest lönd hafa fallið frá og OECD mælir gegn að sé notaður. Íslenskur sjávarútvegur greiðir til ríkisins ólíkt sjávarútvegi allra annarra ríkja innan OECD þar sem hann er styrktur.

Stokka landbúnaðarkerfið upp :: -Hér skiptir öllu máli hvað er gert og hvernig svo það er snúið að gefa þessu einkunn. Efla þarf landbúnað á forsendum meira frelsis í því starfsumhverfi sem honum er skapað. Skapa hvata og hefja samstarf við bændur um að landbúnaður og landnotkun sem eitt öflugasta verkfærið í loftslagsmálum enda þurfum við samstarf við bændur til að ná alvöru árangri, þar liggja tækifæri fyrir landbúnaðinn og um leið eflum við byggðina.

Fleiri opinber störf án staðsetningar :: 10, en ekki síður störf á almennum markaði því flest störf eru nú að hluta til eða öllu leyti án staðsetningar, í því felast gríðarleg tækifæri fyrir Norðvesturkjördæmi.

Afnema alfarið krónu á móti krónu skerðingu öryrkja og aldraðra :: -Ekki hægt að gefa þessu einkunn, kerfin eru ólík innbyrðis en við erum með tillögur að kerfisbreytingum fáum við til þess þingstyrk sem hvetja til atvinnuþátttöku þeirra sem það geta og draga verulega úr skerðingum þannig að hugað sé að ríkissjóði líka.

Úthýsa vélum og farartækjum á Íslandi sem brenna jarðeldsneyti :: -10. -Raunveruleg orkuskipti kalla á frekari raforkuframleiðslu og uppbyggingu innviða svo sem flutnings- og dreifikerfi raforku. Hvenær það gerist vitum við ekki en við viljum vera fyrst allra landa og í leið byggja upp nýja atvinnugrein á Íslandi.

 Lokaspurning

Hvernig lítur land tækifæranna út?
Þar sem fólk um allt land hefur sem bestan farveg til að þroska og nýta hæfileika sína. Á því velta bæði lífsgæði okkar og lífskjör, hamingja okkar og velferð. Með því að setja einstaklinginn í fyrsta sæti, fólkið sjálft, á grundvelli frelsis og ábyrgðar, setjum við Ísland allt í fyrsta sæti. Til þess þarf skýra sýn, trúverðugar leiðir og samstarf við heimafólk.

Við trúum á tækifæri Norðvesturkjördæmis til að eflast og blómstra á grundvelli mannauðs og betri innviða, og að framundan sé tími aukinnar verðmætasköpunar í bæði rótgrónum og nýjum atvinnugreinum með nýsköpun og hugvit að leiðarljósi – sé rétt á málum haldið.

-----

Nú stendur kosningabarátta frambjóðenda til Alþingis sem hæst en kosningar fara fram nk. laugardag. Af því tilefni fékk Feykir frambjóðendur Norðvesturkjördæmis til að svara misgáfulegum spurningum og kynna sig og stefnumál sín í kosningablaði sem kom út í síðustu viku.
Eins og gefur að skilja er forvitnast um pólitíkina en að auki eru nokkrar spurningar í léttari kantinum. Lokaspurningin vísar svo til slagorða framboðsins eða flokksins sem þeir standa fyrir. Að sjálfsögðu tóku þau öll vel í umleitanir blaðsins þó mikið væri að gera á öllum vígstöðvum á lokasprettinum.
Vonandi verða lesendur einhvers vísari um frambjóðendurna tíu og nái að kynnast þeim þó ekki væri nema lítillega og þau mál sem þeir vilja setja á oddinn nái þeir kjöri þann 25. september nk.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir