Frambjóðendur Norðvesturkjördæmis í sviðsljósinu :: Helga Thorberg Sósíalistaflokkurinn
Helga Thorberg, leikkona og garðyrkjufræðingur, skipar fyrsta sæti á lista Sósíalistaflokksins í Norðvesturkjördæmi. Hún segir flokkinn þann eina með róttæka byggðstefnu til að stöðva þá gróðahyggju og yfirgang, valdhroka og spillingu sem viðgengist hefur undanfarin ár og áratugi á landinu.
Helga Thorberg er 71 árs, móðir tveggja sona og á hún fimm barnabörn. Hún telur sig vannýtta auðlind sem býr yfir margþættri reynslu úr ýmsum atvinnugreinum, allt frá því að afgreiða í bakaríi, reka eigin blómabúð, blómaskreytir í Osló, semja sjónvarps- og útvarpsþætti, skrifa bækur og starfað með alls konar félögum. En hvers vegna ættu kjósendur að setja krossinn hjá henni?
„Stórfyrirtækin og stjórnmálin hafa náð að vinavæðast sem hefur skapað alvarlegt siðrof í útdeilingu gæða landsins í þágu einkavæðingar. Allt vald og auður hefur verið tekinn frá byggðunum og fært til höfuðborgarinnar, langt frá fólkinu sem þar býr. Þegar allt vald og fjármagn er tekið burtu þurfa íbúar að búa við valdleysi og þurfa að lifa við ofurvald stórútgerða og stórfyrirtæka sem drottna yfir samfélaginu. Fyrirtækin, þar sem áður voru sjálfstæðir bæir, eru núna stærsti hluti fyrirtækjanna útibú stórfyrirtækja með höfuðstöðvar annars staðar. Bæjarútgerðir voru færðar vildarvinum og seldar úr heimabyggð og með þeim fór kvótinn. Kvótakerfið er orðið einkavætt og þannig hefur arðurinn af sameign þjóðarinnar runnið í vasa fárra auðmanna. Sægreifarnir drottna yfir lífsafkomu fólks og hafa engar aðrar skyldur en að þjóna eigin afkomu.“
Helga segir að böndum þurfi að koma yfir þessi stórfyrirtæki, þar sem gróðahyggjan á sér engin mörk. Hún telur auðhringamyndun stórfyrirtækja vera ískyggilega hættulega þróun sem stefni lýðræði í landinu í hættu. „Allt gert í nafni hagræðingar. Við viljum hagræða í þágu almennings. Þess vegna kjósa þeir Sósíalistaflokkinn, sem vilja byggðastefnu sem byggir á valddreifinu, samvinnu og samhygð og hafna þeirri misbeitingu valds í þágu sérhagsmuna sem við höfum búið við allt of lengi. Ég er búin að fá nóg - og ég held að svo sé um miklu fleiri.“
Hvaða máli værir þú vís með að setja á oddinn náir þú kjöri?
„Afnema núverandi kvótakerfi og færa hann aftur heim til byggðanna. Endurreisa samvinnuhreyfinguna og getu fólks til að byggja upp eigin atvinnutækifæri. Byggja upp öryggi í húsnæðismálum, heilbrigðismálum og félagslegum kerfum.“ Helga sér fyrir sér að afnema mætti núverandi kvótakerfi með lagasetningu og færa valdið til fólksins og endurvekja samvinnufyrirtæki. „Einnig þarf að styrkja fólk til að stofna eigin atvinnutækifæri, efla „beint frá býli“, ferðaþjónustu og auka störf þar sem fólk getur unnið í fjarvinnu sem dæmi. En megin stefnan sem lögð er til allrar ákvarðanatöku er að hafa hagsmuni fólksins á svæðinu að leiðarljósi,“ segir Helga og bendir á að ríkið geti tekið lán á góðum vöxtum til uppbyggingar á húsnæðiskerfinu, og byggja óhagnaðardrifin byggingarfélög. „Þegar ekki þarf að þjóna gráðugum einkabyggingaverktökum, þá er hægt að byggja húsnæði fyrir almenning á hagstæðu verði.
Hvað hún telji að helst brenni á kjósendum á Norðurlandi vestra segir hún að þeir vilji, eins og aðrir landsmenn, eiga heimili, hafa atvinnu og geta séð sér og sínum farborða. „Það vill líka að við hugsum vel um eldri borgara og þá sem standa höllum fæti í samfélaginu. Fólk vill réttlæti, að gæðum landsins sé skipt réttlátar. Fólk vill fá vald yfir lífi sínu og lífskjörum. Fólk vill að það sé gott að búa á Íslandi, fyrir alla,“ segir Helga sem vill brýna fólk til þess að vanda valið í komandi kosningum. „Við erum á ögurstund með að missa þetta þjóðfélag í hendur á valdaklíkum. Það má ekki verða, en þá verður fólk að kjósa annað en þau öfl sem hafa komið okkur á þennan stað. Sósíalistaflokkurinn gefur fólki von um að hægt sé að snúa af þessari hættulegu braut. Ég ætla að leggja því lið. En þú?“ spyr hún alvarleg í bragði.
Léttari spurningar
Hvaða dægurlag lýsir þér best og af hverju?
-Þau eru svo mörg!! Ég elska lög sem fá mig til að dansa, það er ekki hægt að vera í vondu skapi þegar maður dansar !
Hvert er helsta afrek þitt fyrir utan pólitíkina?
-Að koma tveimur sonum til manns.
Þú heldur matarboð og auk vina þinna máttu bjóða einni persónu sem þú alla jafna hittir aldrei. Hver myndi það vera og af hverju býður þú henni?
-Ég myndi bjóða Rúnari vini mínum og við myndum ræða um, tengivirki og flutningsgetu raflína og jarðstrengja, launafl og spennu og raforku til Vestfjarða. Það er mín ástríða.
Hvert er aðaláhugamál þitt?
-Íslensk náttúra í allri sinni dýrð.
Jafnvægisspurningar
Hvar á skalanum frá 0 og upp í 10 þykir þér eftirfarandi málefni vera aðkallandi?
Ísland gangi í ESB. 0
Fá splunkunýja stjórnarskrá. 10
Veita bátum undir 30 tonnum algjörlega frjálsar handfæraveiðar. 10
Aukinn einkarekstur í heilbrigðiskerfinu. 0
Lækka almenna skatta. 10
Hækka skatta á stóreignafólk og stórútgerðir. 10
Stokka landbúnaðarkerfið upp. 10
Fleiri opinber störf án staðsetningar. 10
Afnema alfarið krónu á móti krónu skerðingu öryrkja og aldraðra. 10
Banna alfarið vélar og farartæki sem brenna jarðeldsneyti. 5
Lokaspurning
Hvað eru mannsæmandi kjör?
-Mannsæmandi kjör er að eiga til hnífs og skeiðar, geta borgað reikninga af nauðþurftum eins og mat og húsnæði, komast í sumarfrí og geta uppfyllt þarfir barna sinna um þátttöku í félagsstarfi. Fólk þarf að fá mannsæmandi laun og hafa samt tíma til að sinna sér og sínu fólki.
____
Nú stendur kosningabarátta frambjóðenda til Alþingis sem hæst en kosningar fara fram nk. laugardag. Af því tilefni fékk Feykir frambjóðendur Norðvesturkjördæmis til að svara misgáfulegum spurningum og kynna sig og stefnumál sín í kosningablaði sem kom út í síðustu viku, sjá HÉR.
Eins og gefur að skilja er forvitnast um pólitíkina en að auki eru nokkrar spurningar í léttari kantinum. Lokaspurningin vísar svo til slagorða framboðsins eða flokksins sem þeir standa fyrir. Að sjálfsögðu tóku þau öll vel í umleitanir blaðsins þó mikið væri að gera á öllum vígstöðvum á lokasprettinum.
Vonandi verða lesendur einhvers vísari um frambjóðendurna tíu og nái að kynnast þeim þó ekki væri nema lítillega og þau mál sem þeir vilja setja á oddinn nái þeir kjöri þann 25. september nk.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.