Frambjóðendur Norðvesturkjördæmis í sviðsljósinu :: Bjarni Jónsson Vinstrihreyfingin - grænt framboð

Bjarni Jónsson er nýr oddviti Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi en það sæti fékk hann eftir sigur í prófkjöri flokksins sl. vor. Á síðasta kjörtímabili sat hann í öðru sæti og settist inn á Alþingi sem varamaður Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur sem skipaði efsta sæti flokksins í kjördæminu.

Bjarni fluttist á unglingsárunum heim að Hólum í Hjaltadal þar sem faðir hans, Jón Bjarnason, gerðist skólameistari við Hólaskóla. Síðan hefur Bjarni meira og minna búið í Skagafirði.

„Ég bjó um tíma í Bandaríkjunum þar sem ég var við nám í fiskifræði. Ég hef starfað sem háskólakennari við Háskólann á Hólum og stunda rannsóknir á náttúru Íslands til lands og sjávar og veiti ráðgjöf um auðlindanýtingu.

Við Zahra, eiginkona mín eigum saman Jón Kolka, sem er fjögurra ára og er í leikskóla á Sauðárkróki. Síðan á ég Kristínu Kolka sem er 26 ára gömul, lögfræðingur og býr hún og starfar erlendis hjá Uppbyggingarsjóði EFTA,“ segir Bjarni.

Hann hefur verið mikið í félagsstörfum og tók fyrst sæti í sveitarstjórn í Skagafirði árið 2002. „Byggðamál eru mér hugleikin og vil ég byggja upp fjölskylduvænt samfélag og fjölbreytt atvinnutækifæri við allra hæfi. Til þess að það sé mögulegt tel ég þurfa róttæka byggðastefnu, styrkingu innviða svo treysta megi búsetu um land allt. Þá er virðing og sátt við náttúruna mér mjög nærri.“

Pólitík

Hvers vegna ættu kjósendur í Norðvesturkjördæmi að setja krossinn hjá þér?
-Ég þekki vel til um allt kjördæmið og fólk veit hvað ég stend fyrir og fyrir hvað VG stendur. Ég vil finna hvernig hjartað slær á hverjum stað og er tilbúinn að vinna fyrir fólkið og byggðirnar.

Hvaða máli værir þú vís með að setja á oddinn náir þú kjöri?
-Tryggt aðgengi að góðri heilbrigðis og geðheilbrigðisþjónustu fyrir alla.

Hvernig sérðu fyrir þér að þú náir því máli fram og hvernig yrði það fjármagnað?
-Með skýrum ákvörðunum sem að fylgt verður eftir í anda byggðajafnréttis og fjármagnað úr sameiginlegum sjóðum sem að þegar eru fyrir hendi.

Hvað telur þú að brenni helst á kjósendum á Norðurlandi vestra?
-Aðgengi að heilbrigðisþjónustu, átak í samgöngubótum, fjölbreytt atvinna við allra hæfi og að staðið sé vel á bakvið grunn-atvinnuvegum til lands og sjós.

Eitthvað sem þú vilt koma á framfæri?
-Við þurfum róttæka byggðastefnu þar sem að fólk þorir að taka afstöðu með ákveðnum byggðalögum, jafnvel með skattaívilnunum og beinum stuðningi við búsetu. Liverpool er best!

 Léttari spurningar

Hvaða dægurlag lýsir þér best og af hverju? -On the road again með Willie Nelson. Það á svo vel við þennan tíma.

Hvert er helsta afrek þitt fyrir utan pólitíkina? -Að fá birtar vísindagreinar í virtustu vísindaritum heims Nature og Science.

Þú heldur matarboð og auk vina þinna máttu bjóða einni persónu sem þú alla jafna hittir aldrei. Hver myndi það vera og af hverju býður þú henni? Bernie Sanders! Af augljósum ástæðum, hann er svo sannur.

Hvert er aðaláhugamál þitt? Náttúran.

Jafnvægisspurningar

Hvar á skalanum frá 0 og upp í 10 þykir þér eftirfarandi málefni vera aðkallandi?

Ísland gangi í ESB 0
Fá splunkunýja stjórnarskrá 5
Veita bátum undir 30 tonnum algjörlega frjálsar handfæraveiðar 7
Aukinn einkarekstur í heilbrigðiskerfinu 0
Lækka almenna skatta 0

Hækka skatta á stóreignafólk og stórútgerðir 8
Stokka landbúnaðarkerfið upp 3
Fleiri opinber störf án staðsetningar 10
Afnema alfarið krónu á móti krónu skerðingu öryrkja og aldraðra 8
Banna alfarið vélar og farartæki sem brenna jarðeldsneyti 5

Lokaspurning

Af hverju skiptir máli hver stjórnar? -VG hefur sýnt það í verki og með forystu sinni í ríkisstjórn að flokkurinn er vel í stakk búinn til þess að takast á við stór verkefni og leysa þau þannig að landsmenn allir njóti góðs af. Það er einmitt leiðarljósið í stefnu flokksins að jafna hlut fólks og tækifæri óháð búsetu, uppruna eða kyns. VG leggur áherslu á náttúruvernd, mannréttindi, jöfnuð og það eru stóru málin í dag og þess vegna skiptir máli að kjósa VG.

 

Nú stendur kosningabarátta frambjóðenda til Alþingis sem hæst en kosningar fara fram nk. laugardag. Af því tilefni fékk Feykir frambjóðendur Norðvesturkjördæmis til að svara misgáfulegum spurningum og kynna sig og stefnumál sín í kosningablaði sem kom út í síðustu viku.

 Eins og gefur að skilja er forvitnast um pólitíkina en að auki eru nokkrar spurningar í léttari kantinum. Lokaspurningin vísar svo til slagorða framboðsins eða flokksins sem þeir standa fyrir. Að sjálfsögðu tóku þau öll vel í umleitanir blaðsins þó mikið væri að gera á öllum vígstöðvum á lokasprettinum.

Vonandi verða lesendur einhvers vísari um frambjóðendurna tíu og nái að kynnast þeim þó ekki væri nema lítillega og þau mál sem þeir vilja setja á oddinn nái þeir kjöri þann 25. september nk.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir