Frambjóðendur Norðvesturkjördæmis í sviðsljósinu :: Bergþór Ólason Miðflokkurinn

Efsti maður á lista Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi er alþingismaðurinn Bergþór Ólason. Hann hefur víðtæk tengsl á Norður- og Vesturlandi, fæddur á Akranesi, en ólst upp í Borgarnesi. Hann er ættaður frá Bálkastöðum í Hrútafirði í föðurætt, en faðir hans, Óli Jón Gunnarsson lærði múrverk hjá Jóni Dagssyni á Sauðárkróki áður en hann fór í nám í byggingatæknifræði og spilaði þá körfubolta með Tindastóli.

Móðir Bergþórs var Ósk Gabríella Bergþórsdóttir, loftskeytamaður, frá Akranesi, og þar með er Bergþór hluti af hinni svokölluðu Akraætt. Eftir háskólanám fluttist hann fljótlega upp á Akranes og hefur búið þar síðan, er í sambúð með Laufey Rún Ketilsdóttur, lögfræðingi og á dótturina Lottu Ósk, sem búsett er í Berlín.

Pólitík

„Fyrst er að nefna stefnuna sem Miðflokkurinn leggur fram með mikilli áherslu á hagsmuni landsbyggðarinnar, hinna dreifðu byggða og bænda,“ segir Bergþór spurður hvers vegna kjósendur í Norðvesturkjördæmi ættu að kjósa hann. „Hjá okkur fer saman hljóð og mynd og fólk má treysta því að við gerum það sem við segjumst ætla að gera. Undir forystu formanns Miðflokksins voru kláraðar aðgerðir á kjörtímabilinu 2013-2016 sem voru fordæmalausar og skiluðu ótrúlegum árangri fyrir land og þjóð. Það ætlum við okkur aftur, undir forystu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Ég tel mig hafa djúpan skilning á mikilvægi atvinnulífsins og hvað megi og þurfi að bæta í rekstrarumhverfi fyrirtækja, og áhersla og áhugi á samgöngumálum er allt umlykjandi hjá mér.“

Vegamálin eru Bergþóri hugstæð og segist hann setja þau á oddinn nái hann kjöri enda þurfi að draga vegakerfið inn í nútímann. „Það velkist enginn í vafa um að vegakerfið hefur grotnað niður í viðhaldsleysi undanfarins áratugar og nýframkvæmdir hafa verið í algeru lágmarki. Þau verkefni sem nú eru í gangi, eru mörg hver því marki brennd að þeim hefði átt að vera lokið fyrir löngu síðan. Staðan kristallast í því hversu hægt gengur að koma bundnu slitlagi á malarvegi landsins.

Hvernig sérðu fyrir þér að þú náir því máli fram og hvernig yrði það fjármagnað?
„Við ætlum að færa vegakerfið til nútímans og það strax. Við gerum það með því að nýta það vaxtaumhverfi sem ríkissjóður býr nú við til fjármögnunar innviðaframkvæmda. Við ætlum að fara í 150 milljarða króna skuldsettan framkvæmdapakka í vegamálum.

Með því að flýta nýframkvæmdum í vegamálum með svo afgerandi hætti næst fram mikill sparnaður því slysum á vegunum fækkar, tjón ökutækja dregst saman og umferðin flæðir betur ásamt því að bætt vegakerfi hefur jákvæð áhrif á þróun lofslagsmála.“

Bergþór útskýrir að fjármögnun yrði í gegnum samgönguáætlun sem samþykkt er á Alþingi - rétt eins og gert hefur verið í tilviki samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. „Stjórnvöld þurfa þá að útfæra endurgreiðslu með sem haganlegustum hætti, hvort sem um væri að ræða skuggagjöld sem miða út frá sparnaði annars staðar í opinbera kerfinu, beinum framlögum af samgönguáætlun eða með sérstakri fjármögnun með umbreytingu ríkiseigna í verðmæta eign í vegakerfinu.“

Hvað hann telji að brenni helst á kjósendum á Norðurlandi vestra svarar Bergþór afdráttarlaust. „Málefni bænda, samgöngumál, atvinnumál og heilbrigðismál að ógleymdum menntamálum. Þegar kjósendur ganga að kjörborðinu þann 25. september, þá eiga þeir valið á milli þess að kjósa Miðflokkinn, sem allir vita að gerir það sem hann segist ætla að gera og allra hinna, sem flestir leyfa kerfinu að stýra för. Við eigum að fara betur með skattpeninga og minnka báknið.“

Léttari spurningar

Hvaða dægurlag lýsir þér best og af hverju?
-Hit me with your best shot, kemur upp í hugann, nú eða Don´t stop believing.

Hvert er helsta afrek þitt fyrir utan pólitíkina?
Ætli það sé ekki að hafa gengið 90 kílómetra á gönguskíðum í Vasagöngunni án þess að hafa stigið á gönguskíði áður en ég skráði mig í gönguna. Það var mikið ævintýri og leiddi í ljós að það er hægt að vera með krampa furðu lengi án þess að líkaminn gefist upp.

Þú heldur matarboð og auk vina þinna máttu bjóða einni persónu sem þú alla jafna hittir aldrei. Hver myndi það vera og af hverju býður þú henni?
-Jordan Peterson fengi boðið. Hann er kanadískur sálfræðingur og fyrirlesari. Peterson hefur einstakt lag á að setja mál sitt fram. Ungir drengir, sem hafa margir átt erfitt uppdráttar í skólakerfinu eins og það er skipulagt í dag virðast til dæmis sækja mikinn stuðning í fyrirlestra og kenningar hans.

Hvert er aðaláhugamál þitt?
-Það er árstíðabundin blanda af stangveiði og íþróttum.

Jafnvægisspurningar

Hvar á skalanum frá 0 og upp í 10 þykir þér eftirfarandi málefni vera aðkallandi?

Ísland gangi í ESB: 0
Fá splunkunýja stjórnarskrá: 0
Veita bátum undir 30 tonnum algjörlega frjálsar handfæraveiðar: 0
Aukinn einkarekstur í heilbrigðiskerfinu: 6
Lækka almenna skatta: 10

Hækka skatta á stóreignafólk og stórútgerðir: 4
Stokka landbúnaðarkerfið upp: 6
Fleiri opinber störf án staðsetningar: 8
Afnema alfarið krónu á móti krónu skerðingu öryrkja og aldraðra: 8
Banna alfarið vélar og farartæki sem brenna jarðeldsneyti: 0

Lokaspurning

Hvernig bætum við ríkisreksturinn?
Með því að innleiða hvata sem ýta undir ráðdeild í ríkisrekstri og stuðla að því að hið opinbera og stofnanir þess fari vel með skattpeninga borgaranna.

Miðflokkurinn boðar betri ríkisrekstur fyrir alla. Í því felst að stjórnmálamenn verði gerðir ábyrgir fyrir því að fara vel með skattpeningana sem teknir hafa verið af borgurum og fyrirtækjum landsins. Við eigum að minnka báknið og stýra fjármunum í hin mikilvægu grunnkerfi samfélagsins. Við verðum að bera meiri virðingu fyrir skattpeningum borgaranna en gert hefur verið um árabil.

Það að íbúar landsins fái endurgreiddan helming af afgangi ríkissjóðs 1. desember árið á eftir mun setja þrýsting á stjórnmálamenn að fara vel með og hafa ráðdeild í forgrunni við allar ákvarðanir í ríkisrekstrinum.

 -----

Nú stendur kosningabarátta frambjóðenda til Alþingis sem hæst en kosningar fara fram nk. laugardag. Af því tilefni fékk Feykir frambjóðendur Norðvesturkjördæmis til að svara misgáfulegum spurningum og kynna sig og stefnumál sín í kosningablaði sem kom út í síðustu viku. Sjá HÉR.

Eins og gefur að skilja er forvitnast um pólitíkina en að auki eru nokkrar spurningar í léttari kantinum. Lokaspurningin vísar svo til slagorða framboðsins eða flokksins sem þeir standa fyrir. Að sjálfsögðu tóku þau öll vel í umleitanir blaðsins þó mikið væri að gera á öllum vígstöðvum á lokasprettinum.

Vonandi verða lesendur einhvers vísari um frambjóðendurna tíu og nái að kynnast þeim þó ekki væri nema lítillega og þau mál sem þeir vilja setja á oddinn nái þeir kjöri þann 25. september nk.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir