Frægðin kemur að utan: ÖXIN, AGNES OG FRIÐRIK í Félagsheimilinu á Blönduósi

Ég var búinn að láta vita að ég myndi verða með sýninguna Öxin, Agnes og Friðrik á Blönduósi í nóvember. Svo óx Covid og sýningunni frestað til 13 janúar. Enn varð að fresta en nú trúum við að ekkert stoppi okkur. Sýning í Félagsheimilinu á Blönduósi föstudagskvöldið 8. apríl , kl. 20.00.

Í haust tilkynnti ég að öll innkoma sýningar á Blönduósi rynni sem styrkur annars vegar til stuðnings við Björgunarfélagið Blöndu en hins vegar til stuðnings Þingeyrakirkju. Á báðum stöðum er mikil þörf á stuðningi. Björgunarfélagið að byggja mjög myndarlegt hús og Þingeyrakirkja þarf ávallt á stuðningi að halda til að þetta merka hús geti áfram verið stolt okkar Húnvetninga. Vona ég að aðsókn verði góð þannig að þessir aðilar fái myndarlegan stuðning.

Kostnaður við þessa sýningu verður enginn. Sjálfboðaliðar leggja hönd á plóg og hjónin sem reka Félagsheimilið á Blönduósi ákváðu strax í haust að rukka enga húsaleigu svo öll innkoma geti runnið til ofangreindra aðila. TAKK KÆRLEGA FYRIR STUÐNING VIÐ VERKEFNIÐ.

Þeir sem ekki komast á viðburðinn þann 8 apríl en vilja styrkja verkefnið er bent á að hægt er að styrkja Björgunarfélagið með því að leggja inn á reikninginn 0307-26-1999 kt. 671299-2569 eða reikning Þingeyraklausturskirkju 0307-13-785. kt: 710269-3439

Mikilvægt er að þeir sem vilja vera öruggir með að komast að í Félagsheimilinu 8. apríl þurfa að panta miða á netfangið hafagaman15@gmail.com eða í síma 843 0016. Sala aðgöngumiða fer fram við innganginn. Engin leið er að vita hvað margir vilja koma og auðvitað vonumst við eftir húsfylli þannig að verulega muni um styrkinn frá ykkur. Söguna segi ég á miðju gólfi í Félagsheimilinu og þar í kring röðum við stólum.

Félagsheimilið opnar kl 19:30. Aðgöngumiðinn kostar 3.700 kr. Posi verður á staðnum. Barinn verður opinn í Félagsheimilinu þetta kvöld til kl. 01:00. Minna má á að fyrir hádegi þennan dag 8. apríl þurfa þeir sem vilja komast í sveitarstjórn að leggja fram lista. Þegar hefur stór hópur af öflugu fólki boðið fram krafta sína til að byggja upp nýtt og öflugt sveitarfélag. Það er gleðiefni. Frambjóðendur geta fagnað framboði þetta kvöld og aðrir fagnað föngulegum hóp frambjóðenda, eða eftir atvikum drekkt sorg, ef einhver er, yfir því að komast ekki á lista.

Frægðin kemur að utan sagði í upphafi. Þessi sýning hefur notið mikilla vinsælda síðan ég sagði söguna fyrst í samfellu á Söguloftinu í Borgarnesi 12 janúar 2020, undir traustri leiðsögn Kjartans Ragnarssonar þess mikla leikstjóra og leikhúsmanns. Þar var ég löngum stundum oftast fyrir fullu húsi. Síðan kom Covid. Síðustu tvær helgar hef ég verið í Borgarnesi og í Iðnó í Reykjavík. Þá hefur fjöldi manns komið í ferðir á söguslóðirnar ýmist akandi eða ríðandi. Sagan lifir og mun lifa. Það er ást, hatur, afbrýði og aðrar mannlegar tilfinningar í sögunni þó hryllingurinn sé allt um kring.

Komið og njótið.
/Magnús Ólafsson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir