Fræðslufundir fyrir eldri borgara um svik á netinu

Eldri borgarar verða fræddir um svindl á netinu á fundunum. MYND ÚR MYNDABANKA
Eldri borgarar verða fræddir um svindl á netinu á fundunum. MYND ÚR MYNDABANKA

Lögreglan á Norðurlandi vestra stendur fyrir fræðslu víðsvegar í umdæminu þessa vikuna sem ætluð er fyrir eldri borgara og fjalla um svik á netinu. Sýnd verða dæmi af svikum og bent á leiðir til lausna. Það er Blönduósingurinn Ásdís Ýr Arnardóttir, sérfræðingur hjá embættinu, sem stýrir fræðslunni en fyrsti fræðslufundurinn verður í grunnskólanum á Hofsósi í dag og hefst kl. 13:00.

„Rannsóknir sýna okkur að eldri borgarar og fólk í viðkvæmri stöðu er mun líklegra en aðrir fyrir því að verða fyrir svikum á netinu. Það eru ekki vísbendingar um að íbúar á Norðurlandi vestra séu þar líklegri en aðrir en lögreglustjórinn á Norðurlandi vestra leggur ríkari áherslu á afbrotavarnahlutverk lögreglunnar en áður hefur þekkst hér í embættinu, fræðsla fyrir eldri borgara er hluti af þeirri vegferð,“ segir Ásdís Ýr.

Hún segir að fræðsluröðin sé öllum opin þó hún sér sérstaklega hugsuð fyrir eldri borgara. „Við höfum fengið fjölmargar fyrirspurnir hvort að aðrir hópar séu velkomnir og að sjálfsögðu hvetjum við alla til að mæta sem telja sig þurfa fræðslu.“

Ásdís Ýr mun stýra fræðslunni en hún starfar sem sérfræðingur í afbrotavörnum og samfélagslöggæslu hjá Lögreglunni á Norðurlandi vestra. „Á hverjum stað munu fylgja mér lögreglumenn og konur sem starfa í umdæminu ásamt því að mér barst liðsauki frá einum viðskiptabankanna sem mun segja frá viðbrögðum bankakerfisins,“ enfræðslan er skipulögð í samstarfi við félög eldri borgara í embættinu.

„Ég mun sýna fólki raunveruleg dæmi af tilraunum til svika, og segja þeim frá öðrum en annars geri ég ráð fyrir því að hver og einn hópur stýri umræðunni þar sem þarfir hvers og eins eru ólíkar,“ segir Ásdís Ýr að lokum en hún gerir ráð fyrir því að hver kynning sé um það bil klukkustund.

Sem fyrr segir verður fyrsti fræðslufundurinn á Hofsósi í dag en síðan verður fundur í Félagsheimilinu á Blönduósi þriðjudaginn 12. desember klukkan 14:30, í Höfðaskóla á Skagaströnd klukkan 16:30 og í safnaðarheimilinu á Hvammstanga miðvikudaginn 13. desember klukkan 13. Síðustu fundirnir verða í Skagafirði á fimmtudag, sá fyrri á Löngumýri kl. 13:00 og loks í Árskóla á Sauðárkróki kl. 16:00.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir