Fór huldu höfði í skjóli bænda í Skagafirði :: Á flótta í 40 ár. Öðruvísi Íslandssaga
Út er komin bókin, Markús. Á flótta í 40 ár. Öðruvísi Íslandssaga, eftir sagnfræðinginn Jón Hjaltason. Markús þessi var Ívarsson, Eyfirðingur og nokkuð fyrir heiminn eða hvað á að segja um mann sem átti fimmtán börn með átta konum? Og til að bæta gráu ofan á svart komst hann upp á kant við lögin, sat þrjú ár í betrunarhúsi í Kaupmannahöfn og gerðist seinna flóttamaður, sá seigasti í því fagi sem Ísland hefur átt. Markús andaðist 1923 og hafði þá verið eftirlýstur síðan hann strauk úr tukthúsi á Akureyri árið 1881.
Það vakti forvitni Feykis að Skagafjörður tengist sögu Markúsar og því var höfundurinn, Jón Hjaltason, fenginn í örstutt spjall.
„Jú, það má kalla þetta spennusögu öðrum þræði en jafnframt gríp ég hvert tækifæri til að lýsa samfélaginu sem Markús þreifst í. Og þá ekki síst því er sneri að barneignum, hórdómi, legorði og faðernisprófi 19. aldar – sem var býsna magnað.“
Jón Hjaltason, sagnfræðingur og rithöfundur.
Jón segir prófast Skagfirðinga, séra Jón Hallsson, koma aðeins við þá sögu þar sem ein barnsmæðra Markúsar, Guðbjörg Sigurðardóttir, hafi verið um langt árabil ljósmóðir í Skagafirði en yfirvöld í Eyjafirði reyndu að kúga Skagfirðinga til að greiða meðlag með barninu.
„Ég segi sem betur fer því að tilraunin varpar fróðlegu ljósi á samfélag 19. aldar. Raunar kemst Skagafjörður, svo ég nefni það nú sérstaklega, oftar í brennidepil frásagnarinnar en Markús flýði hingað og fór huldu höfði í skjóli bænda. Af því er allmikil saga, fyrst þegar hann var handsamaður og síðar þegar hann, flóttamaðurinn, kom öðru sinni og enn tóku skagfirskir bændur við honum og földu, jafnvel vetrarlangt.“
En hvað varð þá um Markús, leikur okkur forvitni á að vita.
„Úr Skagafirði hvarf hann suður á land og það þrátt fyrir að sýslumaðurinn í Eyjafirði hafði þá sent hingað menn til að handsama hann. Og það á eigin kostnað en sýslumaður óttaðist embættismissi vegna flótta Markúsar. Allt kom þó fyrir ekki, Markús komst aldrei aftur undir mannahendur en endaði ævina á Litla-Hrauni á Snæfellsnesi og hafði þá verið eftirlýstur í tæp 40 ár.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.