Flugeldasýningar víða á Norðurlandi vestra

Flugeldasýning. MYND AF NETINU
Flugeldasýning. MYND AF NETINU

Það eru bara nokkrir tímar eftir af árinu 2021 en að þessu sinni mun gamla árið víðast hvar verða sprengt í loft upp með flugeldasýningum. Á Blönduósi verður þó kveikt í brennu en hún verður minni í sniðum en undanfarin ár og ekki ætlast til að fólk sæki þann viðburð.

Samkvæmt upplýsingum Feykis munu Björgunarsveitin Skagfirðingasveit og Skátafélagið Eilífsbúar, Björgunarsveitin Grettir og Flugbjörgunarsveitin í Varmahlíð standa fyrir flugeldasýningum í Skagafirði á gamlársdag.

Sýningarnar verða sem hér segir:

Sauðárkrókur – Skotið ofan af Nöfum kl. 21:00
Hofsós – Flugeldasýning kl. 17:30
Varmahlíð – Sýning fyrir neðan Varmahlíð kl. 17:15

Hægt verður að sjá sýningarnar úr góðri fjarlægð og brýnt er að hafa í huga þau tilmæli að forðast hópamyndanir.

Á Hvammstanga verður ekki kveikt í brennu á gamlaárskvöld vegna samkomutakmarkana en Björgunarsveitin Húnar verða með sína árlegu flugeldasýningu á Hvammstanga á gamlárskvöld kl 21:00.Sýningin er í boði einstaklinga og fyrirtækja á svæðinu.

Fram kemur á heimasíðu Húnaþings vestra að skotið verður upp af norðurgarði Hvammstangahafnar og er mælst til að áhorfendur hópist ekki saman niður við höfn vegna veirufaraldursins heldur haldi sig með sínu fólki vítt og breytt um svæðið. Athygli er vakin á því að flugeldasýningin á Hvammstanga verður í beinni útsendingu á facebooksíðu Björgunarsveitarinnar Húna.

Ekki verður brenna á Skagaströnd en flugeldasýning hefst þar kl. 21:30 í kvöld.

Á Blönduósi verður sýning kl. 20:45 og þar verður einnig brenna á Miðholtinu og kveikt verður í henni kl. 20:00. Hún verður með öðru sniði en venjulega, lokað verður fyrir almenning á Miðholtið og brennan minni en síðustu ár.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir