Fleiri kosningaeinvígi takk! :: Leiðari Feykis
Jæja, nú er loksins búið að velja framlag Íslands í Söngvakeppni Evrópu, Eurovision, sem fram fer í Tórínó á Ítalíu um miðjan maí. Eins og allir, og amma hans, vita kepptu fimm lög á úrslitakvöldi söngvakeppni Sjónvarpsins sl. laugardagskvöld en tvö stigahæstu úr fyrri kosningu komust í úrslitaeinvígið. Lagið Með hækkandi sól í flutningi systranna Sigríðar, Elísabetar og Elínar Eyþórsdætra, fékk flest atkvæði kjósenda en Reykjavíkurdætur enduðu í öðru sæti keppninnar með lagið Turn this around.
Margir urðu hissa á úrslitunum þar sem flestir sem létu í sér heyra í miðlum landsins, og höfðu kannski hvað hæst, höfðu spáð Reykjavíkurdætrum sigri. Það höfðu helstu veðbankar gert líka. Þessi væntingauppátroðsla hafði einnig áhrif á sigurvegarana sem ætluðu ekki að trúa því að þær hefðu unnið. Létu meira að segja hafa eftir sér að þær hefðu haldið með Reykjavíkurdætrum. Ég er svo sem ekki saklaus sjálfur þar sem ég kaus Eyþórsdæturnar en bjóst við sigri hinna.
„Nei, við bara vorum vissar um að Reykjavíkurdætur myndu vinna. Við vonuðumst alveg til að vinna, það er ekki það, að við séum ekki ánægðar með að vinna. Það kom okkur bara svo á óvart og við erum svo þakklátar fyrir það að þjóðin treysti okkur til að fara út,“ sögðu þær í viðtali við RÚV.
Svo römm var undrun þeirra sem kusu Reykjavíkurdætur að ýjað var að því að aðstandendur keppninnar hefðu hagrætt kosningunum eða kerfið ekki virkað sem skyldi. Í gær var það svo opinberað hvernig framvinda kosninganna hafði verið en samkvæmt tilkynningu frá RÚV höfðu Reykjavíkurdætur verið með forystu eftir fyrri hluta keppninnar en aftur á móti höfðu þær Elín, Sigga og Beta haft yfirburði í símakosningunni í einvíginu sem tryggði þeim farmiðann á keppnina stóru.
Ýmsir hafa velt þessu kosningafyrirkomulagi fyrir sér og misjafnt hvað fólki finnst. En að mínu mati er þarna komin besta kosningin sem er einnig sú lýðræðislegasta og mætti nota víðar. Hugsið ykkur t.d. forsetakosningar, líkt og þær sem fóru fram árið 2014 þar sem alls voru níu frambjóðendur í framboði. Þá var Guðni Th. Jóhannesson kosinn forseti en einungis með 39,1% atkvæða. Þá hefði verið fínt að fá að kjósa á milli tveggja efstu og fá afgerandi niðurstöðu en Halla Tómasdóttir hafði fengið 27,9%.
Ég hef ekkert út á Guðna að setja en örugglega hefði verið betra fyrir hann að fá yfir helming atkvæða í þetta stóra embætti líkt og gerðist árið 2020 þar sem hann hlaut 92,2% greiddra atvæða.
Góðar stundir!
Páll Friðriksson
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.