Fjórir smitaðir af Covid í Skagafirði og 72 komnir í sóttkví
Fjórir eru smitaðir af kórónuveirunni og 72 í sóttkví í Skagafirði samkvæmt upplýsingum Almannavarna á Norðurlandi vestra en unnið er að smitrakningu og er af þeim sökum töluverður fjöldi kominn í úrvinnslusóttkví. „Þetta tengist vinnustað í bænum. Hún er þess eðlis þessi starfsemi að þetta getur teygt sig í ýmsar átti þannig að menn eru bara að reyna að gæta varúðar,“ er haft eftir Sigfúsi Inga Sigfússyni, sveitarstjóra Svf. Skagafjarðar í frétt á Vísi.is. Sýnatökur og smitrakning er í fullum gangi.
Í tilkynningu ANV á Facebook-síðu Lögreglunnar á Norðurlandi vestra segir: „Fjögur ný covid-19 smit greindust í gær í umdæminu en af þeim voru þrír í sóttkví. Unnið er að smitrakningu og er af þeim sökum töluverður fjöldi kominn í úrvinnslusóttkví. Niðurstöður úr skimunum ættu að liggja fyrir í kvöld eða í fyrramálið. Aðgerðastjórnin vill minna íbúa Norðurlands vestra á að gæta allra persónulegra sóttvarna og minnast þess einnig að stríðið við Covid-19 er ekki liðið hjá, veiran er ennþá úti í samfélaginu. Við þurfum öll að vera á varðbergi. Það er aldrei of oft ítrekað að finni einstaklingar fyrir einkennum, fari þeir ekki á meðal fólks heldur fari í skimun. Almannavarnir byrja heima.“
Í frétt Vísis.is er haft eftir Sigfúsi Inga að of snemmt sé að tala um hópsmit en að líkur sé á að sýkingin nú sé meiri að umfangi en sveitarfélagið hafi lent í til þessa í faraldrinum. „Það eru alveg líkur á því að þetta sé stærra umfang en við höfum lent í áður. Við höfum nú sloppið mjög vel hingað til,“ segir sveitarstjórinn sem segir jafnframt að fjöldinn sem sé í sóttkví eða smitaður geti mögulega haft áhrif á atvinnustarfsemi á svæðinu í komandi viku.
„Það eru miklar sýnatökur núna yfir helgina og rakningarteymið er að störfum þannig að við erum bara aðeins að reyna að ná utan um þetta,“ segir Sigfús Ingi. Eins og sjá má á töflunni eru smitin öll í póstnúmeri 550 sem er Sauðárkrókur og þar eru nú 58 í sóttkví.
Heimildir: Vísir.is og ANV
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.