Fjölmörg verkefni á Norðurlandi vestra hlutu styrk úr Matvælasjóði
Nú um miðjan september veitti Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, 566,6 milljónum úr Matvælasjóði en sjóðurinn styrkti 64 verkefni að þessu sinni. Alls bárust 273 umsóknir í fjóra styrkjaflokka Matvælasjóðsins og var sótt um tæplega 3,7 milljarða króna. Í umfjöllun á vef Stjórnarráðsins kemur fram að 93% umsókna hafi talist styrkhæfar. 14% þess fjármagns sem veitt var að þessu sinni rann til verkefna á Norðurlandi vestra.
Meðal verkefna sem hlutu styrki á Norðurlandi vestra má nefna þróun og markaðssetniingu gæsaafurða (Birgir Þórðarson), aðlögun framleiðsluferlis jurtamjólkur að markaðsþörfum (Steindór Runiberg Haraldsson), vöruþróun og tilraunir með innmat úr lömbum (Brjálaða gimbrin), tilraunir og vöruþróun á ætum rósum (Starrastaðir) og vöruþróun og markaðssetning á handverksostum úr geita- og sauðamjólk (Stefanía Hjördís Leifsdóttir). Allir þessir styrkir voru þrjár milljónir eða eitthvað lægri.
BioPol á Skagaströnd hlaut styrk upp á tæpar 11 milljónir vegna verkefnisins SOUL: Sustainable Omega-3 oil from Underutilized Lumpfish. Fleiri verkefni á Norðurlandi vestra hlutu styrki en þá oftar en ekki í samstarfi við fleiri aðila víða að af landinu.
Matsjá
Vefur SSNV greinir frá því að í samstarfi við Samtök smáframleiðenda matvæla hafi landshlutasamtökin og atvinnuþróunarfélög á öllu landinu lagt inn umsókn í Matvælasjóðinn og hlaut hún brautargengi og ríflega 5,3 milljón króna styrk. Verkefnið, sem kallast Matsjá – stuðningur við matarfrumkvöðla, snýr að því að veita smáframleiðendum stuðning með því að sníða aðferðarfræði úr verkefninu Ratsjá að matarfrumkvöðlum.
Á vef SSNV segir: „Afurð verkefnisins verður fræðsla fyrir smáframleiðendur til að styðja þá í að aukinni verðmætasköpun, til að styrkja stöðu þeirra, efla framleiðslu, auka sölutekjur og styðja við sjálfbærni í rekstri. Markmið stuðningskerfisins er að auka innsýn þátttakenda í rekstri og innviða fyrirtækis með það fyrir augum að finna leiðir til að auka hagkvæmni, bæta rekstur, auka fagmennsku og innleiða samfélagsábyrgð í fyrirtækin.
Smáframleiðendur matvæla fá greiningu á sínum rekstri og einkatíma með ráðgjöfum. Á svokölluðum heimafundum, sem starfsmenn landshlutasamtakanna koma til með að stýra, verður rekstur eða vara smáframleiðenda rýnt til gagns á jafningjagrundvelli. Smáframleiðendur fá jafnframt fyrirlestra og fræðslu sem tengjast starfsemi þeirra.Lagt er upp með að um sé að ræða 16 vikna tímabil. Á því tímabili verða 8 fyrirlestrar og erindi og 8 heimafundir.
Verkefnið verður unnið í breiðu samstarfi Samtaka smáframleiðenda matvæla (SSFM) og landshlutasamtakanna/atvinnuþróunarfélaga. Með víðtæku samstarfi gefst tækifæri á að mynda sterkt tengslanet meðal smáframleiðenda matvæla.“
Fram kemur í frétt SSNV að verkefnið verður nánar auglýst síðar þegar kemur að skráningum fyrir smáframleiðendur.
Hér má finna nánari upplýsingar um styrki Matvælasjóðs á vef Stjórnarráðsins >
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.