Fjallabyggð tapaði „fjár“- máli fyrir Héraðsdómi

Mynd: Trölli.is
Mynd: Trölli.is

Þann 16. mars síðastliðinn var kveðinn upp dómur í Héraðsdómi Norðurlands eystra þar sem Fjallabyggð tapaði máli gegn Á Gunnari Júlíussyni, einnig vel þekktur sem „Gunni Júll“ á Siglufirði. Frá þessu er greint á Trölla.is.

Þar segir að Fjallabyggð hafi kært Gunnar fyrir brot á lögum um búfjárhald og samþykkt um búfjárhald í Fjallabyggð, með því að hafa frá haustmánuðum 2018 til 10. desember 2018 haldið ótiltekinn fjölda af sauðfé í flugskýli við Flugvallarveg 2 á Siglufirði, án þess að vera með leyfi skipulags- og umhverfisnefndar sveitarfélagsins Fjallabyggðar fyrir búfjárhaldi á þessum stað innan þéttbýlis í Fjallabyggð. Þess var krafist að Gunnar yrði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostaðar.

„Flugskýlið sem ákærði heldur fé sitt í, er í botni Siglufjarðar, austan megin Hólsár. Það er innan skilgreinds þéttbýlis Siglufjarðar samkvæmt aðalskipulagi en utan þeirrar afmörkunar sem sýnd er á loftmynd sem fylgir samþykkt um búfjárhald, og nokkuð frá byggðakjarnanum.
Það er álit dómsins að samþykkt um búfjárhald í Fjallabyggð sé ekki nægilega skýr til að ákærða verði refsað fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök. Verður ákærði því sýknaður af kröfum ákæruvalds.“ Sjá nánar á Trölli.is.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir