Fékk boltann beint í höfuðið og steinlá í grasinu - Liðið mitt Helena Magnúsdóttir
Það er nú ekki ónýtt að hafa fyrrverandi meistaradeildarleikmann Breiðabliks í sjúkrateymi Tindastóls, bæði í fótbolta og körfu en Helena Magnúsdóttir eða Lena sjúkraþjálfari, hefur sinnt því hlutverki um margra ára bil. Hún starfar við Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Sauðárkróki en passar upp á leikmenn kvenna og karla þess utan með sínu árangursríka nuddi. Á heimasíðu KSÍ má finna fótboltaferil Lenu sem hófst hjá Breiðablik í 1. deild kvenna árið 1994 og þar á hún alls 32 meistaraflokksleiki fram til 1999 er deildin kallaðist Meistaradeild kvenna. Lena svarar spurningum í Liðinu mínu.
Hvert er uppáhalds liðið þitt í enska boltanum og af hverju? -Spurningin hefði verið miklu auðveldari í svörun ef við værum að tala um íslensk lið þá væri það allan daginn Tindastóll og líka kvennalið Breiðabliks í efstu deild enda gamall leikmaður. Þannig að í þeim leikjum þá slær Tindastólshjartað sterkar enda frábært að sjá stelpurnar okkar komnar á stóra sviðið í deild þeirra bestu. En við erum að tala um ensku og þar er það Manchester United. Í raun var ég og hef aldrei verið gallharður stuðningsmaður en í menntaskóla þá héldu tveir af mínum bestu vinum með Liverpool og þegar ég var spurð þá valdi ég erkifjendur þeirra Manchester United og hef haldið mig við það alla tíð síðan.
Hvernig spáir þú gengi liðsins á tímabilinu? -Auðvitað segi ég alltaf að þeir muni vinna deildina þó svo að ég hafi oft á tíðum ekki hugmynd um það hvar þeir séu í deildinni!
Ertu sátt við stöðu liðsins í dag? -Ef maður hefur alltaf trú á því að liðinu gangi vel þá hlýtur maður að vera sáttur. En miðað við gengi liðsins í dag (þurfti að kíkja á stöðuna til að vera viss) þá er ég nokkuð sátt, annað sætið er ansi góður árangur.
Hefur þú einhvern tímann lent í deilum vegna aðdáunar þinnar á umræddu liði? -Í gamla daga lenti maður í þessum rökræðum um Liverpool og Manchester United en í dag er það ekki mikil rifrildi því ég enda alltaf á því að segja að ég hafi ekki hugmynd um liðið eins og það er í dag.
Hver er uppáhaldsleikmaðurinn fyrr og síðar? -Uppáhaldsleikmaður minn með Manchester United er Ryan Giggs. Hann var alltaf svo solid leikmaður. En ef ég mætti líka nefna íslenskan leikmann þá set ég Margréti R. Ólafsdóttur, leikmann Breiðabliks í fyrsta sætið. Við spiluðum saman í Breiðablik og traustari manneskju er ekki hægt að finna innan vallar sem utan.
Hefur þú farið á leik með liðinu þínu? -Því miður, nei, þá hef ég ekki farið, en það hefur verið á stefnuskránni í mörg ár. Það verður að bíða betri tíma miðað við ástandið í heiminum.
Áttu einhvern hlut sem tengist liðinu? -Já ég á bolla sem er merktur Manchester United og er ég með hann uppi í vinnu. Bróðir minn, sem er harður stuðningsmaður Liverpool, gaf mér bollann eftir eina af sínum boltaferðum til Englands.
Hvernig gengur að ala aðra fjölskyldumeðlimi upp í stuðningi við liðið? -Það gengur akkúrat ekkert að ala mína menn upp sem United stuðningsmenn. Held samt að yngri sonurinn sé að komast á bragðið en það er ekki vegna áhrifa frá móðurinni.
Hefur þú einhvern tímann skipt um uppáhalds félag? -Í raun ekki, það hefur alltaf verið þannig að þú skiptir ekki um lið.... þannig að, nei auðvitað ekki.
Uppáhalds málsháttur? -Þolinmæði þrautir vinnur allar. Þetta er málsháttur sem Vanda Sig. setti á blað fyrir mig einu sinni er hún var minn þjálfari og þessi málsháttur á svo vel við bæði í íþróttum og í minni vinnu.
Einhver góð saga úr boltanum? -Miðað við hvað ég spilaði lengi með Breiðablik þá eru til margar sögur. Ein góð er frá því er við fórum til Portúgals í æfingarferð, þjálfarinn var þá Jörundur Áki Sveinsson, og fannst okkur geggjað að komast á gras svona snemma og líka í sól. Á einni æfingunni voru fyrirgjafir frá kantinum og horn æfð, ég spilaði alla tíð í vörn og var það ekkert öðruvísi í þessari æfingu. Það kom hár bolti frá kantinum í áttina að mér og ég var eitthvað lengi að ákveða mig hvort ég ætlaði að sparka honum frá eða skalla sem endaði með því að ég fékk boltann beint í höfuðið og steinlá í grasinu. Kristrún Lilja, sóknarmaður mikill, var við hliðina á mér og áður en hún lagðist í grasið og skellihló þá tékkaði hún á því hvort það væri nú ekki í lagi með mig.
Einhver góður hrekkur sem þú hefur framkvæmt eða orðið fyrir? -Ég er nú ekki mikið fyrir það að hrekkja aðra en fyrir nokkrum árum fór ég með unglingalandsliði út í keppnisferðalag sem sjúkraþjálfari. Ég man ekki hvar í veröldinni við vorum en í hópnum voru nokkrir leikmenn sem nú eru leikmenn A landsliðskvenna í dag. Dömurnar voru tvær og tvær saman í herbergi og eitt herbergið var svolítið utan við sig og voru nokkrum sinnum búnar að læsa sig úti og í morgunmat einn daginn gleymdu þær lyklinum að herberginu á borðinu og við tókum lykilinn og settum gervirottu ofan í niðurfallið í sturtunni hjá þeim. Það eina sem sást var skottið hitt var ofan í niðurfallinu. Svo biðum við mjög spenntar ég og liðstjórinn í ferðinni eftir því að þær færu í sturtu eftir æfingu og lætin sem við heyrðum voru sko ekki á lágu nótunum. Þetta tókst svo hrikalega vel að þær voru alla ferðina að reyna að svara fyrir sig.
Spurning frá Vöndu Sig: -Hvert er þitt skrítnasta augnablik sem sjúkraþjálfari íþróttaliðanna á Króknum?
Svar: -Ég held að skrítnustu augnablikin séu samskipti dómara við þjálfara og leikmenn. Nokkur skondin atvik hafa komið upp, sérstaklega á fótboltavellinum. Eitt gott var þegar Árni Arnarson fékk krampa í báða kálfa og dómari hleypti mér ekki inn á til að hjálpa honum út af og til að komast út af þá skreið Árni út af vellinum í miklum kvölum við mikinn hlátur liðsmanna hans. Annað gott atvik var með kvennaliðinu þegar Pétur Björnsson var aðstoðarþjálfari, leikurinn gekk ekki eins og við vildum og Pétur tók lyklana sína og henti þeim í tartanið með nokkrum vel völdum orðum. Dómarinn kom hlaupandi að til að spjalda Pétur og spurði hann til nafns og hann með sinni djúpu háu rödd sagði hátt og snjallt „ég heiti Pétur Björnsson“ dómarinn sem ekki þekkti Pétur hálf datt aftur fyrir sig því honum brá svo við þetta háa dimma svar. Við hin skemmtum okkur mjög vel við þetta atvik.
Hvern myndir þú vilja sjá svara þessum spurningum? -Þjálfara meistaraflokks karla Tindastóls í körfuboltanum, Baldur Þór Ragnarsson.
Hvaða spurningu viltu lauma að viðkomandi? -Hvaða sigur Tindastóls undir þinni stjórn er sá sætasti og af hverju?
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.