Fækkun veiðidaga á grásleppunni

Á heimasíðu FISK.IS segir að uppistaða aflans hjá Málmey SK 1 hafi verið þorskur og var hún meðal annar á veiðum á Sléttugrunni. Mynd: fisk.is
Á heimasíðu FISK.IS segir að uppistaða aflans hjá Málmey SK 1 hafi verið þorskur og var hún meðal annar á veiðum á Sléttugrunni. Mynd: fisk.is

AFLATÖLUR | Dagana 18. apríl til 24. apríl 2021 á Norðurlandi vestra

Nú eru þrjár vikur síðan fyrsti báturinn skráði sig inn á grásleppuveiðarnar hér á Norðurlandi vestra og eins og áður hefur komið fram er mjög góð veiði en verðið ekki til að hrópa húrra fyrir en þrátt fyrir það eru nú átján bátar á veiðum.

Í fyrstu var gefið út leyfi til að stunda hrognkelsaveiðar í 40 daga samfleytt eftir að bátur skráði sig inn en nú hefur Atvinnuvega og nýsköpunarráðuneytið gefið út þá reglugerð að veiði- dögum fækki niður í 35 daga. Þessar fréttir koma ekki á óvart miðað við þá mokveiði sem hefur verið og áttu margir von á að veiðin yrði stöðvuð.

Aflahæsti bátur vikunnar á Norðurlandi vestra er Dagrún HU 121 með alls 22.562 kg en ef teknar eru allar þrjár vikurnar saman þá er Dagrún HU 121 einnig með vinninginn eða alls 35.175 kg.

Annars er það að frétta úr öðrum aflafréttum að Málmey SK 1 landaði tæpum 112 tonnum á Króknum en alls var þar landað 279.996 kg og þar af 62.792 kg af grásleppu. Á Skagaströnd var það Dagrún HU 121 sem var aflahæst með 22.562 kg en alls var landað rúmum 137 tonnum. Enginn bátur landaði á Hvammstanga þessa vikuna en einn bátur landaði á Hofsósi, Þorgrímur SK 27, alls 9300 kg. Heildarafli á Norðurlandi vestra var 726.778 kg í síðustu viku og af því var alls 191.045 kg af grásleppu.

Á heimasíðu FISK.IS má lesa um þegar Drangey SK 2 kom til hafnar í síðustu viku á Sauðárkróki. Uppistaða aflans var þorskur og hafði FISK.IS samband við Ágúst Ómarsson skipstjóra og spurði um túrinn. „Veiðiferðin tók sex daga. Við leituðum víða, fórum vestur Þverál, síðan Reykjafjarðarál, þaðan á Sléttugrunn og enduðum á Rifsbanka. Veiðarnar hafa verið rólegar, hafísinn gerði okkur erfitt fyrir á Vestfjarðamiðum. Veðrið hefur verið fínt þessa dagana,“ sagði Ágúst.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir