Erum vongóð um fullan bata Atlasar
„Okkar börn væru ekki á lífi ef ekki væri fyrir þetta frábæra starfsfólk. Væntumþykjan þar á bæ er endalaus,“ er haft eftir Kristbjörgu Kamillu Sigtryggsdóttur í Morgunblaðinu í síðustu viku en hún og Elna Ragnarsdóttir á Skagaströnd komu ásamt eiginmönnum sínum og ungum börnum þeirra færandi hendi á vökudeild Landspítalans nokkrum dögum fyrr. Feykir forvitnaðist örlítið um málið.
Elna er uppalin á Skagaströnd, dóttir Ragnars Högnasonar frá Skagaströnd og Kristínar Bjarkar Leifsdóttur frá Hnausum í Vatnsdal. Á Ströndinni býr hún enn ásamt Skagfirðingnum Elvari Bjarka Gíslasyni, Sæmundssonar frá Syðstu Grund og Þorbjargar Freyju Pétursdóttur frá Flateyri. Hann er uppalinn í Skagafirði og hefur starfað sem bílstjóri hjá Vörumiðlun seinustu átta árin tæplega.
Sonur þeirra, Atlast Týr, greindist með hjartagalla í 20 vikna sónar og fór strax í aukið eftirlit hjá Gylfa Óskarssyni hjartalækni og Huldu Hjartardóttir yfirlækni á fósturgreiningu. Elna segir það hafa verið erfitt að greina nákvæmlega hver gallinn væri en eins og það leit út með tímanum þá undirbjuggu þau sig fyrir sjúkraflug beint til Svíþjóðar með barnið í hjartaaðgerð. Á 29. viku er Atlas greindur alvarlega vaxtarskertur og tók þá enn meira eftirlit við:
„Þá þurftum við að keyra til Reykjavíkur frá Skagaströnd í hverri viku í mælingar og sónar, plús auka tíma hjá Gylfa til þess að óma hjarta hans. Gangsetning er svo framkvæmd við 37 vikur, en Atlas fór fljótt að þreytast og hjartslátturinn að taka dýfur niður á við svo það var ákveðið að sækja hann með keisara fyrr en síðar svo hægt væri að gera það á rólegri nótunum. Allan þennan tíma, sem leið eins og margir klukkutímar en var sennilega undir klukkustund, komu inn til okkar yndislegar ljósmæður og skurðlæknir sem pössuðu vel upp á okkur öll þrjú. Við vorum ekki aðskilin og fékk Elvar að fylgja mér frá fyrstu mínútu,“ segir Elna.
Atlas er fæddur kl. 14:36 þann 29. nóvember sl. og fengum foreldrarnir rétt að sjá hann áður en barnalæknarnir tóku hann aðeins til hliðar þar sem hann var skoðaður í bak og fyrir og segir Elna að strax hafi verið kallað á Elvar svo hann gæti fylgst með.
„Atlas stóð sig eins og hetjan sem hann er, hann þurfti enga aðstoð og var svo hraustur þrátt fyrir að vera ponsulítill. Ég fékk að hafa hann í fanginu meðan skurðinum mínum var lokað og fylgdi svo Elvar barninu yfir á vökudeild með læknunum þar sem nánari rannsóknir fóru fram. Atlas kom öllum á óvart en hann er með þrengingu í ósæð, op á milli gátta og lítinn og þykkan vinstri slegil. Enn sem komið er hefur ekkert inngrip þurft, og verður vonandi ekki, en við erum í góðu eftirliti hjá Gylfa „okkar“, segir Elna og bætir því við að nýjustu rannsóknir hafi leitt í ljós hugsanlegan galla í ristli og mun Atlas þurfa aðgerð. „Krefjandi tímar framundan en við erum vongóð um fullan bata Atlasar.“ Elna segir þakklætið endalaust hjá foreldrunum, hvernig gripið var utan um þau, passað upp á tengslamyndun og allt starfsfólkið hafi verið til fyrirmyndar.
Hugmyndin að þeirri gjöf sem vikið var að í upphafi viðtalsins segir Elna hafi verið út frá snuði sem Atlas fékk á vökudeildinni. Henni hafi gengið erfiðlega að finna eins snuð á landinu en fann svipað frá BIBS í Danmörku. „Ég ákvað að senda þeim skilaboð og athuga hvort þeir myndu gefa okkur afslátt ef ég myndi kaupa 100 stykki, sagði þeim frá þessari hugmynd minni og þeir þarna úti ákváðu að gefa okkur snuðin og Mydummy.co.uk gáfu merkingu á þau öll. Það gekk vonum framar að fá fyrirtæki með okkur en með hjálp vina okkar urðu þau 15 talsins. Það kom mest á óvart bara góðvildin hjá öllum.
Móttökurnar upp á vöku voru frábærar, en við heyrðum í þeim með smá fyrirvara og sögðumst vera með „smá glaðning“ en þurftum svo aðstoð fjögurra til þess að bera þetta allt saman inn,“ segir Elna til útskýringar á „smá glaðningnum“ sem reyndist heilmikill.
Þrátt fyrir erfiðar spítalaheimsóknir segjast þau Elna og Elvar sjá framtíðina fyrir sér fulla af hamingju og hávaða, enda með fjögur börn í heimili. „Það er allt bjart, þó svo það komi upp smá hraðahindranir eru það bara verkefni sem við leysum saman sem fjölskylda,“ segir Elna í lokin.
„Við viljum koma á framfæri þakklæti til vökudeildar og allra fyrirtækjanna sem styrktu okkur. Þá eiga fjölskyldur okkar skilið mesta hrósið enda algjörlega til staðar frá A-Ö þegar við vissum ekki hvort stefnan væri Svíþjóð eða eitthvað annað.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.