Er enska ofnotuð í íslenskri ferðaþjónustu?

Stundum eru þó orð óþörf. Mynd: Af netinu.
Stundum eru þó orð óþörf. Mynd: Af netinu.

Það hefur eflaust ekki farið framhjá neinum að undafarin ár hafa erlendum ferðamönnum fjölgað talsvert (ef við horfum framhjá Covid-tímum) og þar með fyrirtækjum sem sérhæfa sig í ferðaþjónustu. Til að sinna þessum fjölda ferðamanna þarf vinnuafl og þegar illa hefur gengið að ráða íslenska starfsmenn hefur verið leitað út fyrir landsteinanna að starfsfólki.

Erlent vinnuafl hefur því verið áberandi í íslenskum ferðaþjónustufyrirtækjum og þar með hefur enska verið töluð í meiri mæli í þessum bransa sem og flestar upplýsingar um fyrirtækin og það sem þau hafa upp á að bjóða, hafa verið á því tungumáli. Algengt hefur einnig verið að fyrirtæki í ferðaþjónustu kjósi bera ensk nöfn í staðin fyrir íslensk. Þekktasta dæmið um það er án efa þegar að Flugfélag Íslands breytti nafni sínu í Air Iceland Connect.

Síðastliðið sumar ferðuðust íslendingar meira en ella gerist um sitt eigið land og skiptu gjarnan við ferðaþjónustu fyrirtæki. Þjónustan var víðast hvar góð en samskipti og upplýsingar voru oftar en ekki á ensku.

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Ferðamáladeild Háskólans á Hólum í Hjaltadal stóðu nýverið fyrir rannsókn á því hvert væri ríkjandi tungumál í ferðaþjónustu á Íslandi. Rannsóknina unnu Ágústa Þorbergsdóttir, málfræðingur á Árnastofnun, Anna Vilborg Einarsdóttir og Sigríður Sigurðardóttir, lektorar við Ferðamáladeild Háskólans á Hólum.

Markmið rannsóknarinnar var að komast að því hver væri „staða íslensku í markaðssetningu ferðaþjónustunnar og hvaða þættir ráða því hvort enska eða íslenska verður ráðandi tungumál í ferðaþjónustunni?“.

Á vef Árnastofnunar eru niðurstöður rannsóknarinnar teknar saman svo hljóðandi:
„Niðurstöður gefa það sterklega til kynna að ferðaþjónustuaðilar sjái sér ekki hag í að nota íslensku í þjónustu og við útgáfu upplýsinga og á markaðsefni. Ekki margir sjá sérstaka ástæðu til þess að nota bæði íslensku og ensku. Telja rannsakendur að full ástæða sé til að hvetja ferðaþjónustuaðila sérstaklega til þess að móta sér málstefnu þar sem íslensk tunga fái forgang í þjónustu. Segir jafnframt í lokaorðum skýrslu rannsóknarinnar: „Enginn ætti að geta ferðast um Ísland án þess að komast að því að hér á landi er talað sérstakt tungumál sem er ekki enska.“

Er það rétt þróun að enska sé með yfirhöndina í ferðamálabransanum eða viljum við gera íslenskuni hærra undir höfði? Þetta eru vangaveltur sem allt í lagi er að velta fyrir sér.

Skýrsluna í heild sinni má lesa hér.

 /SMH

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir