Enn fjölgar smitum á Norðurlandi vestra
Samkvæmt stöðutöflu sem aðgerðastjórn almannavarna á Norðurlandi vestra opinberaði nú í morgun heldur Covid-smituðum einstaklingum að fjölga í umdæminu en nú eru 115 skráðir í einangrun 18 fleiri en í gær. „Það er mikil hreyfing á töflunni og þá aðallega upp á við því miður. Því munum við reyna að uppfæra hana örar,“ segir í færslu almannavarna á Facebook-síðu Lögreglunnar á Norðurlandi vestra.
Samkvæmt nýjustu tölum á Covid.is fjölgaði smituðum um 273 síðasta sólarhringinn á landsvísu hvar 10.433 manns sitja nú í einangrun. Einn hefur bæst við fjölda innlagðara á sjúkrahús þar sem 54 dvelja og þrír eru nú á gjörgæslu en þar fjölgaði líka um einn síðasta sólarhring
Á Norðurlandi vestra eru 115 skráðir í einangrun, flestir á Sauðárkróki þar sem fjölgaði um tíu frá í gær og eru nú 40, á Skagaströnd fjölgaði um sex en þar eru 24 í einangrun, 14 í dreifbýli Varmahlíðar, 12 á Blönduósi og 9 í dreifbýli Sauðárkróks en þar fækkaði um þrjá. Mun færra er á öðrum stöðum og enginn er skráður í póstnúmer 500 né 566.
Afnám sóttkvíar, fjöldatakmörk í 200 manns og 1.000 manna viðburðir heimilaðir :: Covid-smitum fjölgar á Norðurlandi vestra
Helstu breytingar á samkomutakmörkunum sem tóku gildi um síðustu helgi eru þær að almennar fjöldatakmarkanir fara úr 50 í 200 manns innandyra en utandyra falla þær brott sem og í í verslunum.
Heimilt verður að halda 1.000 manna viðburði að því tilskildu að allir sitji í sæti og beri grímu og heimilt að halda hlé á viðburðum og selja veitingar án takmarkana.
Grímuskylda á aðeins við ef ekki er hægt að viðhafa eins metra reglu.
Sund- og líkamsræktarstöðvum sem og skíðasvæðum er heimilt að taka á móti gestum með fullum afköstum og þá eru íþróttakeppnir og -æfingar heimilar með 200 manns í hólfi.
Reglugerð um takmörkun á skólastarfi fellur brott og þar með gilda almennar reglur um samkomutakmarkanir í skólum, þó með undanteknum til rýmkunar og nú er heimilt að halda skólaskemmtanir í grunn- og framhaldsskólum án nokkurra takmarkana.
Opnunartími vínveitingastaða hefur verið lengdur um eina klukkustund, þ.e. heimilt að taka á móti gestum til miðnættis en allir þurfa að hafa yfirgefið staðinn klukkan eitt.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.