Enn eru orð landbúnaðarráðherra fordæmd

Stjórn Kjördæmafélags Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi sendi frá sér yfirlýsingu í gærkvöldi þar sem lýst er yfir vantrausti á Kristján Þór Júlíusson, landbúnaðarráðherra. Þar er fullyrt að hann hafi ítrekað sýnt að hann valdi ekki því embætti, þar á meðal með því að gera lítið úr sauðfjárbændum og telur hann þá vera að stunda lífstíl með atvinnu sinni líkt og tómstundaiðkun fólks.

„Landbúnaðaráðherra sem virðir ekki landbúnaðinn hefur ekkert erindi til þess að vera Landbúnaðarráðherra. Það vekur furðu að þingmenn Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi, sem hefur að geyma mikil landbúnaðarhéröð, leyfi þessu að viðgangast óáreitt, þeir eru kannski sammála þessum orðum ráðherra síns um bændastéttina. Fylgja þeir ráðherranum í blindni?“ spyr stjórn Kjördæmafélags Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi.

Fyrr um daginn hafði þingflokkur Miðflokksins einnig sent frá sér tilkynningu þar sem orð ráðherra voru fordæmd. Sigurður Páll Jónsson, þingmaður Miðflokksins hefur óskað eftir sérstakri umræðu á Alþingi við fjármálaráðherra um rangar skráningar á innfluttum matvælum en bent var á í yfirlýsingunni að orð ráðherra hafi komið beint ofan í fréttir af röngum skráningum tollskýrslna fyrir innflutt matvæli.

Tengd frétt: Kristján Þór Júlíusson harðlega gagnrýndur af ummælum sínum um stöðu sauðfjárræktar á Íslandi

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir