39

Sjálfsvíg eru einn af  mælikvörðum geðheilsu í samfélaginu á hverjum tíma. Þau eru endapunktur og óafturkræf. Árið 2019 tóku 39 Íslendingar líf sitt. Tilgangurinn með því að birta tölu sjálfsvíga á Íslandi á síðasta ári er fyrst og fremst að beina sjónum að orsakaþáttum geðheilbrigðis. Þannig má auka umræðu um geðheilsu og orsakaþætti hennar og þannig stuðla að framförum. Sjálfsvíg eru staðreynd sem samfélög þurfa að lifa með en þeim á ekki að fylgja skömm og/eða afneitun. Skynsamlegra er að horfast í augu við þau, viðurkennum en reynum jafnframt að koma í veg fyrir þau og draga úr tíðni þeirra. Leiðin til þess er að bæta og rækta geðheilsu þjóðarinnar og gefa henni gaum.

Fyrir neðan fossinn
Áhersla samfélagsins þegar kemur að geðheilsu hefur um langt árabil verið fyrst og fremst á einkenni,  meðferð og endurhæfingu við þeim vanda sem kominn er upp í stað þess að horfa til orsakaþátta. Þetta  viðköllum að vera fyrir neðan fossinn. Fyrir neðan fossinn fer fram meðferð og endurhæfing á einkennum. Þar er vissulega víða pottur brotinn. Þar þarf að skoða hugmyndafræði, þvinganir og nauðung, fábreyttar aðferðir við meðferð, vannýtta heilsugæslu, mikla starfsmannaveltu, vond kjör starfsmanna, takmarkaða aðkomu notenda og aðstandenda, heftan aðgang að sálfræðimeðferð, einhæfni í nálgun sálfræðinga, gamaldags nálgun í aðstandendavinnu, takmörkuð búsetuúrræði, skort á virkniúrræðum og húsakost geðþjónustu á Íslandi.  

Fyrir ofan fossinn
Þar eru verndandi þættir geðheilbrigðis. Meðganga, frumbernska, barnæska, skólakerfið, árin á vinnumarkaði og ellin. Það að koma í veg fyrir hluta þeirra áfalla sem einstaklingur verður fyrir á æviskeiði sínu og draga úr áhrifum þeirra bætir geðheilsu. Þangað ættum við að færa áherslur okkar. Orsakaþættir geðheilsu eru fjölmargir og það skiptir máli hvernig við hugum að þeim og ræktum. Við þurfum öll að uppfylla grunnþarfir: Næra, hreyfa, vera virk, ástunda hlýju og mildi svo nándin næri okkur auk þess sem tilgangur og hlutverk okkar í lífinu ýti ávallt undir vellíðan og sátt.

Samfélagslegur ávinningur
Á Íslandi eru um 22.000 öryrkjar. Beinn og óbeinn kostnaður samfélagsins vegna þessa er áætlaður um 180 milljarðar á ári. Örorkuþegar vegna geðrænna áskoranna eru rúmlega 8.000 – kostnaður samfélagsins vegna þessa er áætlaður um 65 milljarðar á ári. Árlegur kostnaður ríkisins við geðlyf er í kringum fimm milljarða. Með því að bíða fyrir neðan fossinn fjölgar einstaklingum í þessum hópi. Hverfum frá  aðgreiningarstefnunni og jaðarsetningu þeirra sem glíma við geðrænar áskoranir. Með því að einbeita okkur að verndandi þáttum geðheilsu þá mun samfélagið allt græða. Fyrir utan fárhagslegan ávinning þess að koma fólki í virkni þá er innihaldsríkt líf utan fátæktargildru vart metið til fjár.  

Áskorun
Við búum öll við geðheilsu og á lífsleiðinni göngum við öll í gegnum eitthvað sem hefur áhrif á hana. Nú finnum við á eigin skinni og sjáum það á fólkinu í kringum okkur hvað einangrun, óvissa og breytingar á athöfnum daglegs lífs geta haft mikil áhrif. Orsakaþættir geðheilsu eru fjölmargir og það skiptir máli hvernig við hugum að þeim og ræktum.

Taktu þátt og saman setjum við geðheilsu í forgang í samfélaginu. Þú getur skrifað undir áskorun þess efnis hér: www.39.is

Fólk með sjálfsvígshugsanir er minnt á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið. Einnig er hægt að leita til Píeta samtakanna og síminn opinn allan sólarhringinn og er 552-2218 og vefsíðan www.pieta.is.

Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir