Endurbættur vefur Ísland.is
Fyrir helgi var vefurinn Ísland.is, sem er upplýsinga- og þjónustuveita opinberra aðila á Íslandi, opnaður í nýrri og endurbættri útgáfu með það að markmiði að gera viðmót gagnvart notendum skýrara og betra. Á vef Stjórnarráðsins kemur fram að á Ísland.is verður auðvelt að finna það sem leitað er að og eru þrjár meginleiðir til að finna efni. Sú fyrsta er í gegnum lífsviðburði, svo sem upplýsingar um nám, flutninga, barneignir eða stofnun fyrirtækja. Þá er búið að skilgreina helstu þjónustuflokka á vefnum, t.d. um akstur og bifreiðar, fjármál og skatta, heilbrigðismál og fjölskyldu og velferð. Ennfremur hefur leit á vefnum verið styrkt og er auðvelt að sækja upplýsingar í gegnum hana.
Vefurinn er gefinn út í beta-útgáfu. Í því felst að hann er enn í þróun og eru ábendingar notenda vel þegnar, segir á stjornarradid.is.
Í opnunarávarpi sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, að nóg væri komið af gamaldags viðmóti, útprentuðum eyðublöðum og bið eftir afgreiðslu sem ekki snúist einungis um leiðindi og tímasóun. Það hangir fleira á spýtunni.
„Ég fullyrði að gamaldags og óskilvirk opinber þjónusta grefur almennt undan trausti á hinu opinbera heilt yfir. Og öfugt. Ef fólk upplifir opinbera þjónustu sem örugga, skilvirka, hraða og persónulega þá eykur það trú á opinbera kerfinu í heild.
Það hefur sýnt sig að ánægja með opinberar stofnanir er að jafnaði mest þar sem frumkvæði hefur verið sýnt við að innleiða nútímatækni og markvisst unnið að því að greiða leið fólks, án þess að gefinn sé afsláttur af eftirlitshlutverkinu, þar sem það á við. Þannig snýst verkefnið í aðra röndina um traust til hins opinbera. Svo ég orði þetta hreint út: Við viljum fá almennilega þjónustu fyrir skattpeningana okkar.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.