Elvar Már náði mynd af haferni um helgina
Elvar Már Jóhannsson er einn af áhugaljósmyndurum Skagafjarðar en hann fór á smá ljósmyndarúnt um helgina og náði nokkrum myndum af haferni sem var að spóka sig á Kjalvegi. Þar sem þessi tiltekni haförn var með dökkan gogg gefur það til kynna að um ungan haförn sé að ræða.
Haförn er auðgreindur á stærð og lögun og ferhyrndum vængjum með ystu handflugfjaðrir vel aðskildar. Haförninn svífur gjarnan en er þunglamalegur í flugtaki og oftast má sjá úr mikilli fjarlægð hvar örninn svífur á þöndum vængjum yfir landi eða hafi og leitar sér að bráð. Aðalbráðin hjá þeim er fýll, sem þeir taka á flugi en æðarfuglinn og fiskinn grípa þeir við yfirborðið á sjónum. Lundi og máfar eru einnig bráð hans en þeir éta gjarnan hræ og ræna stundum æti frá öðrum fuglum.
Haförninn er staðfugl og var áður dreifður um allt land en höfuðstöðvarnar hafa ávallt verið á Vesturlandi. Þar hélt hann velli þrátt fyrir skefjalausar ofsóknir undir lok 19. aldar. Hann var alfriðaður 1913 en var þrátt fyrir það nærri útdauður um 1960, þá voru aðeins um 20 hjón í stofninum. Á síðustu áratugum hefur honum fjölgað hægt en örugglega og var stofninn 75 pör árið 2016.
Heimildir teknar af fuglavefur.is og fuglaverd.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.