Ellefu í einangrun og 47 í sóttkví á Norðurlandi vestra
Enn bíðum við góðra frétta af Covid-faraldrinum en eftir að fjöldi smita rauk upp nú um miðjan júlí hafa dagleg smit verið í kringum 100 síðustu daga. Í gær greindust 122 smitaðir og staðan á landinu í dag er þannig að 852 eru í einangrun, 2243 í sóttkví og 951 í skimunarsóttkví. Átta eru á sjúkrahúsi. Nú seinni partinn birtist loks tafla frá Almannavörnum á Facebook-síðu Lögreglunnar á Norðurlandi vestra þar sem farið er yfir dreifingu þeirra sem eru ýmist í einangrun eða sóttkví á svæðinu.
Í tilkynningu frá aðgerðastjórn almannavarna á Norðurlandi vestra sem fylgir töflunni segir: „Því miður er covid-19 komið aftur á stjá. ... Smit eru að greinast í flest öllum umdæmum landsins og þrátt fyrir að ekki séu smit í öllum póstnúmerum okkar hér á Norðurlandi vestra þá mega íbúar umdæmisins ekki gleyma sér á verðinum. Munum okkar persónulegu sóttvarnir og umfram allt munum að við erum öll almannavarnir !!“
Staðan á Norðurlandi vestra er í stuttu máli þannig að ellefu eru í einangrun en 47 í sóttkví og dreifing smita hefur sennilega aldrei verið meiri á svæðinu. Flestir eru smitaðir á Sauðárkróki eða fjórir, þar eru 13 í sóttkví en 14 eru í sóttkví á Hvammstanga og tveir í einangrun.
Vonir standa til þess að þrátt fyrir að margir þeirra sem nú smitast séu bólusettir þá muni bólusetningin koma að mestu í veg fyrir alvarleg veikindi. Það ætti að koma í ljós á næstu tveimur vikum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.