Dráttur í húsnæði Björgunarfélagsins Blöndu
Í framhaldi af undirskrift um kaup á nýju húsnæði Björgunarfélagsins Blöndu á Miðholti á Blönduósi var gengið frá sölu á húsnæði félagsins að Efstubraut 3. Í færslu sveitarinn á Facebook-síðu sinni kemur fram að aðstaðan á Efstubraut 3 hafi verið byggð í sjálfboðavinnu af félögum í Hjálpasveit skáta á Blönduósi og Björgunarsveitarinnar Blöndu á árunum milli 1970 og 1980 en þau félög hafi síðar verið sameinuð, eða árið 1999, í Björgunarfélagið Blöndu.
Í frétt Björgunarfélagsins segir að Tækjaþjónustan Dráttur ehf. hafi skrifað undir samning um kaup á öllu húsnæði félagsins að Efstubraut 3 en félagið mun verða með sína starfstöð í gamla húsnæðinu þangað til að það nýja verður tilbúið.
Hið nýja húsnæði Blöndu á Miðholti samanstendur af tveimur iðnaðarbilum eða alls 4342 af 1.739 m2 límtréshúss sem skiptast í ellefu einingar en þar verður ýmiskonar starfsemi í framtíðinni.
„Húsnæðið verður búið þrem stórum innkeyrsluhurðum, með gegnumkeyrslu í gegnum tvær þeirra. Búnaðar og skápaaðstöðu fyrir félaga, fundarsal, eldhúsi, aðgerðarstjórnstöð og geymslurými á millilofti. Einnig verður uppsett rafstöð sem sér sjálfvirkt um að halda húsnæðinu fyrir rafmagni í rafmagnsleysi. Þetta verður mikil bylting fyrir starf félagsins, en með þessu fáum við mikið betra pláss fyrir björgunartæki og búnað ásamt því að aðbúnaður félagsmanna verður einsog best verður á kosið,“ segir á Facebook-síðu Björgunarfélagsins Blöndu á Blönduósi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.