Doktorsvörn Ingibjargar Sigurðardóttur
Ingibjörg Sigurðardóttir, lektor við Ferðamáladeild Háskólans á Hólum, varði doktorsritgerð sína frá Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands sl. föstudag í Hátíðasal Háskóla Íslands. Titill doktorsritgerðar Ingibjargar er „Hestaferðaþjónusta á Íslandi: Klasaþróun og tækifæri til nýsköpunar.“ Leiðbeinandi var dr. Runólfur Smári Steinþórsson, prófessor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.
Á heimasíðu HÍ má lesa eftirfarandi um kandídatinn:
Ingibjörg Sigurðardóttir er fædd í Skagafirði 15. júní 1973. Sambýlismaður hennar er Sólberg Logi Sigurbergsson. Börn hennar eru Aron Smári Pálsson, Sindri Snær Pálsson, Fjóla Indíana Sólbergsdóttir og Björn Austdal Sólbergsson.
Ingibjörg er lektor við Háskólann á Hólum og deildarstjóri Ferðamáladeildar. Hún lauk stúdentsprófi af hagfræðabraut frá Fjölbrautaskólanum á Sauðárkróki, búfræðiprófi og frumtamningaprófi Félags tamningamanna af hrossaræktarbraut Hólaskóla, diplóma í ferðamálum dreifbýlis frá sama skóla auk landvarða- og staðarvarðaréttinda. Einnig BS prófi í viðskiptafræði frá Háskólanum á Akureyri og MS prófi í viðskiptafræði með áherslu á stjórnun frá Háskólanum á Bifröst. Auk kennslu, rannsókna og stjórnunarstarfa innan háskóla, hefur Ingibjörg sinnt ýmsum störfum í ferðaþjónustu, landbúnaði og hestamennsku ásamt því að hafa unnið að stofnun og stjórnun fyrirtækja.
Ágrip doktorsritgerðar:
Í rannsókninni er fjallað um hestaferðaþjónustu sem atvinnugrein. Leitað er svara við því hvað einkennir þróun greinarinnar á Íslandi og með hvaða hætti greinin sjálf, tengdar atvinnugreinar og klasar, rekstrarumhverfið og tiltækar auðlindir geta stuðlað að aukinni samkeppnishæfni. Rannsóknin var gerð með eigindlegum og blönduðum rannsóknaraðferðum.
Meginniðurstaða rannsóknarinnar er dregin saman í líkani um mikilvæga samkeppnisþætti hestaferðaþjónustu. Í líkaninu er horft til grunnþátta tengdra atvinnugreina. Hestamennska (t.d. ræktun, tamning, kennsla, viðburðir) og ferðaþjónusta (t.d. áfangastaðir, innviðir, ímyndarsköpun, markaðssetning) skipta þannig miklu máli fyrir greinina. Einnig aðgerðir hins opinbera og ytra umhverfi (t.d. menntun, rannsóknir, stoðkerfi, skráning hagstærða, skattkerfi, lagalegt umhverfi, gengi krónunnar). Aðgengilegar auðlindir s.s. íslenski hesturinn, náttúra, menning, saga, aðgengi að víðernum, lítt snortinni náttúru, og reiðleiðum, graslendi til beitar og heyskapar og hæft starfsfólk, eru grunnþættir frekari þróunar. Aðgerðir greinarinnar sjálfrar og tengdra klasa skipta einnig sköpum og geta t.d. falið í sér aukna sérhæfingu, sýnileika, nýsköpun og nýtingu tækninýjunga, áhættugreiningu, sameiginlega stefnumótun, aukið samstarf og eflingu félagskerfis.
Með því að vinna með meginþætti líkansins, má ætla að greinin verði samkeppnishæfari auk þess sem að lagt er til að líkanið verði nýtt sem grunnur að stefnumótun fyrir greinina og sem vegvísir fyrir frekari rannsóknir á hestaferðaþjónustu sem atvinnugrein.
HÉR er hægt að horfa á doktorsvörn Ingibjargar, sem var í beinu streymi sl. föstudag.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.