Covid lætur á sér kræla í herbúðum Tindastóls

Tölur af Covid.is frá í morgun. SKJÁSKOT
Tölur af Covid.is frá í morgun. SKJÁSKOT

Það virðast ansi margir hafa fengið eitthvað óvænt og óvelkomið í jólagjöf þetta árið. Covid-smitum fer hratt fjölgandi í kjölfarið á útbreiðslu Ómikron-afbrigðis veirunnar sem er augljóslega bráðsmitandi en virðist þó sem betur fer ekki hafa í för með sér alvarleg veikindi. Íbúar á Norðurlandi vestra hafa alla jafna sloppið nokkuð vel undan pestinni í ár en nú herma fréttir að leik Þórs Akureyri og Tindastóls í Subway-deildinni, sem fram átti að fara annað kvöld, hafi verið frestað vegna smits í herbúðum Tindastóls.

Síðustu vikur hefur fjölda síktra á landinu fjölgað mjög og hvert metið af öðru verið slegið. Í byrjun vikunnar ætlaði allt á hliðina þegar tilfellin fóru yfir 200 en í gær greindust 672 einstaklingar með veiruna. Nú eru 4.174 í einangrun á landinu og yfir sex þúsund manns í sóttkví. Nýgengi smita stendur nú í 1.170 (14 daga nýgengi á 100.000 íbúa) en í Delta-bylgjunni nú í nóvember fór þessi tala hæst í 578 og hafði þá aldrei verið hærra. Enn eru aðeins 14 covid-sjúklingar á sjúkrahúsi og fimm á gjörgæslu en búast má við að innlögnum fjölgi í kjölfarið á þessum mikla fjölda smita.

Norðurland vestra var með áberandi lægstu smittölurnar síðustu vikur, einn til þrír einstaklingar í einangrun lengi vel nú í desember en á aðfangadag var talan komin í fjóra og í dag hefur sú tala fjórfaldast; 16 eru í einangrun og 29 í sóttkví.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir