Byggðasafn Húnvetninga og Strandamanna á Reykjum - International 10/20 árgerð 1930
Á Byggðasafninu á Reykjum eru ekki aðeins bátar, askar og sáir til sýnis þrátt fyrir að aldir handverkfæra og búsgagna baðstofumenningarinnar séu þar hvað mest áberandi. Upphaf vélaaldarinnar hérlendis er gjarnan miðuð við árið 1902 er fyrstu vélinni var komið fyrir í sexæringnum Stanley á Ísafirði.
Fyrsta dráttarvélin kom til landsins 1918 en ekki kvað verulega að innflutningi fyrr en árið 1930 þegar um 70 dráttarvélar af gerðinni International og Fordson komu til landsins. Meðal þeirra var fyrsta dráttarvélin í Vestur-Húnavatnssýslu, International 10/20 og er hún til sýnis á safninu. Hana átti Steinbjörn Jónsson, söðlasmiður á Syðri-Völlum, og var hún mest notuð við plægingar í sýslunni en í jarðræktarlögunum sem sett voru 1923 var sérstakur kafli um vélayrkju sem var styrkhæf úr jarðabótasjóði: „fjé til að starfrækja og gera tilraunir með jarðræktarvélar, svo sem þúfnabana, skurðgröfur og aðrar nýtískuvélar sem eru við hæfi hér á landi“.
Á meðfylgjandi mynd má sjá Steinbjörn ásamt fleiri mönnum á námskeiði á Reykjum í Ölfusi vorið 1930 þar sem þeir lærðu meðferð á dráttarvélunum við komu þeirra og var fjallað sérstaklega um námskeiðið í mánaðarriti IHC í Chicago í mars árið eftir og segir m.a: „að verið sé ef til vill að skrifa nýjan kafla í sögu og þróun Íslands“. Og það voru orð að sönnu.
Þessi dráttarvél, sem á fátt sameiginlegt með núverandi arftökum nema nafnið, stóð sína vakt og leiddi húnverska bændur til mikilla framfara í ræktun á meðan hennar naut við. Hún er rúm tvö tonn að þyngd, snérist undir fullu álagi rúma 1000 sn/mín og skilaði þá um það bil 20 hestöflum. Vélin er fjórgengis og gat gengið bæði fyrir steinolíu og bensíni. Þrír gírar voru áfram og einn afturábak og telst hún seint hafa verið hraðskreið, 3,2 km í fyrsta og 6,4 í þeim þriðja. Eins og oft vill vera gleymast þeir með tímanum sem ruddu brautina þegar eftirfylgjendurnir renna í förin. Eftir að tilgangi vélarinnar lauk stóð hún lengi utandyra eða allt þar til hún kom hingað á safnið í því ástandi sem hún er. Vitnar það um áhrif notkunar og veðurfars á þeirri tæpu öld sem liðin er síðan hún færði húnverskum bændum innsýn í nútíma ræktunarhætti.
Heimildir: Bjarni Guðmundsson 2010, Alltaf er Farmall fremstur.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.