Blönduósingur sem býr í Grindavík – Helga Ólína Aradóttir og Jón Steinar Sæmundsson

Helga Ólína og Jón Steinar. MYND AÐSEND
Helga Ólína og Jón Steinar. MYND AÐSEND

Nú heyrum við Blönduósingnum henni Helgu Ólínu Aradóttur sem er fædd og uppalin á Blönduósi en bjó í 20 ár á Skagaströnd þar sem hún kenndi við Höfðaskóla. Helga og maðurinn hennar, Jón Steinar Sæmundsson verkstjóri hjá Vísi hf., hafa búið saman í Grindavík síðan Helga flutti til hans fyrir sex árum síðan. Jón Steinar hefur hins vegar búið í Grindavík síðan hann var tveggja ára en þau eiga heimili á Litluvöllum sem er ofarlega vestanmegin í bænum.

Aðspurð hvernig líðan þeirra sé segir Helga að hún sé alls ekki góð. „Það er erfitt að búa við mikla óvissu um framtíðina, hvert er framhaldið, hvað tekur við? Ef ekki gýs, treystir fólk sér þá til að búa áfram á svæðinu? Ef ekki, hvar fást þá fjármunir til að byrja upp á nýtt annars staðar? Það eru alls konar hugsanir sem fara í gegnum hugann alla daga og nætur. Og biðin eftir að sjá hvað gerist er erfið,“ segir Helga.

Var auðvelt fyrir ykkur að finna samastað, voru þið farin áður en bærinn var formlega rýmdur? ,,Við höfum sem betur fer gott tengslanet í kringum okkur, margt gott fólk og fengum inni hjá dóttur okkar og tengdasyni í Njarðvík. Ég kenni þar í Sérdeildinni Ösp við Njarðvíkurskóla og hef mikinn stuðning frá fólkinu mínu þar. Á föstudeginum þegar ósköpin dundu yfir hafði ég farið í sumarbústað í Borgarfirði og slapp þannig við öll lætin. Jón Steinar var einn heima og þegar skjálftarnir ágerðust ákvað hann að fara inn í Njarðvík og bíða þá af sér. Það var áður en til rýmingar kom.“

Hafið þið fengið að fara aftur heim til að sækja eitthvert dót eða gæludýr? „Við höfum náð að fara heim og sækja dót og vorum svo heppin að fá að fara á okkar bíl og bæði, meira en margir hafa getað, því miður. Það er hrikalega erfitt að velja og ákveða hvað skuli taka með sér þegar svona gerist og þó ég hafi skrifað lista og tekið með mér þá gleymdi ég að kíkja á hann þó ég héldi á honum. Maður skalf, svitnaði og var með brjálaðan hjartslátt á meðan maður stoppaði í húsinu.

Nú hafa verið gríðarlegir skjálftar, var orðið mikið tjón heima hjá ykkur áður en þið yfirgáfuð heimilið? ,,Við gátum ekki séð skemmdir á húsinu okkar en það er náttúrulega mikið brotið og þess háttar inni á heimilinu. En það eru dauðir hlutir sem skipta litlu máli. Það var mjög erfitt að fara frá húsinu og vita ekkert hvort maður á afturkvæmt eða hvort það stendur þegar öllu þessu er lokið.

Hvernig er staðan næstu vikur hvað varðar skóla og vinnu. Vitið þið eitthvað, er hægt að gera einhver plön í svona mikilli óvissu? ,,Allavega er ljóst að ekkert verður eins aftur. Það er eins og ég segi, erfitt að hugsa fram í tímann og alls ekki hægt að gera nein plön. Ég er í góðri vinnu á frábærum vinnustað hér í Njarðvík. Jón Steinar er að vinna hjá Vísi og hefur verið að vinna síðustu daga í að aðstoða við verðmætabjörgun þar. En óvíst er hvernig það allt verður í framtíðinni. Það er erfitt að fá húsnæði fyrir okkur hérna svo ætli við verðum ekki flóttamenn hérna áfram og stelum herbergi af dóttursyninum eitthvað áfram. Þetta verður bara að koma í ljós og við höldum áfram að ,,refresha” vef almannavarna,“ segir Helga að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir