Blendnar tilfinningar vegna niðurstöðu sameiningakosninga í A-Hún.
„Að sjálfsögðu voru þetta mikil vonbrigði, að þessum sveitarfélögum sem hafa haft mikið samstarf um langt skeið, skyldi ekki öllum lánast að samþykkja sameiningu. Ef til vill var það of mikil bjartsýni að vonast til að þetta gengi en það kom mér á óvart að Skagabyggð skyldi fella og hversu stórt hlutfall kaus gegn sameiningu á Skagaströnd, fyrst sveitarstjórnin þar ákvað að taka þátt í þessari vinnu á annað borð,“ segir Jón Gíslason, formaður sameiningarnefndar og oddviti Húnavatnshrepps, um niðurstöðu sameiningarkosninga í Austur-Húnavatnssýslu.
Tillaga um sameiningu fjögurra sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu; Blönduósbæjar, Húnavatnshrepps, Skagabyggðar og Skagastrandar var felld en á Skagaströnd sögðu 69,2% íbúa nei við sameiningu, og í Skagabyggð 54,7% íbúa. Hins vegar greiddu 89,4% íbúa Blönduósbæjar tillögunni brautargengi og sögðu já við sameiningu og í Húnavatnshrepp sögðu 56,6 % íbúa já.
Jón segir samstarfsnefndina vera nú um það bil að ljúka störfum þar sem þessu verkefni er lokið en sveitarfélögin sem samþykktu tillöguna hafa ekki rætt framhaldið.
„Það er ljóst að meirihluti íbúa í Húnavatnshreppi og á Blönduósi tóku afdráttarlausa afstöðu með þessari sameiningu. Hvað verður í framhaldinu verður tíminn að leiða í ljós. Ég vil þakka þeim félögum í RR ráðgjöf Róberti Ragnarssyni og Jóni Hróa Finnssyni kærlega fyrir gott samstarf og fagmannlega vinnu í þessu sameiningarferli og óska þeim góðs gengis í sínum störfum í framtíðinni. Einnig vil ég þakka öllum nefndarmönnum fyrir samstarfið með von um að við getum öll notið sumarsins sem er nú loksins komið.“
Best að vera ekki með svartsýnisraus
„Viðbrögð mín eru fyrst og fremst vonbrigði með niðurstöður hér í Skagabyggð og á Skagaströnd og komu þær mér á óvart. Ég taldi að íbúar væru á þeirri skoðun að gott væri að sameinast öllum hinum sveitarfélögunum í A-Hún. Mikil vinna er að baki hjá samstarfsnefnd og því eru það vissulega vonbrigði að þetta séu niðurstaðan,“ segir Dagný Rósa Úlfarsdóttir, oddviti Skagabyggðar og bætir við að sveitarstjórn muni í framhaldi funda um niðurstöður en ekki liggur fyrir hvernig framhald gæti orðið.
„Það er mikilvægt að íbúar sveitarfélaga fái að segja sína skoðun í framtíðaráformum þess og niðurstaðan hjá okkur er sú að fólki hugnast betur að vera án fjöldans, hvernig sem það á eftir að ganga. Best að vera ekki með svartsýnisraus hvað það varðar á þessari stundu heldur horfa fram á veginn og vinna úr niðurstöðum,“ segir Dagný Rósa.
Úrslit komu ekki á óvart
Alexandra Jóhannesdóttir, sveitarstjóri á Skagaströnd segir það alltaf jákvætt þegar fólk nýtir kosningarréttinn en kjörsókn var 84% á Skagaströnd. „Sameiningartillaga var felld með tæplega 70% atkvæða í sveitarfélaginu og afstaða íbúa á Skagaströnd því mjög skýr. Það verður að teljast góð niðurstaða þegar vilji íbúa nær fram að ganga með afdráttarlausum og ótvíræðum hætti,“ segir Alexandra sem segir niðurstöðu kosninganna ekki hafa komið sér á óvart. „Ég hafði ekki sterka tilfinningu fyrir niðurstöðunni svo svarið við því er nei.“
Alexandra segir ýmsa fleti á mögulegum sameiningum öðrum en kosið var um sl. laugardag. „Það sem mér er efst í huga er sameining Skagastrandar og Skagabyggðar, enda rekum við bróðurpart af allri þjónustu í sameiningu og höfum gert farsællega í mörg ár. En það er mikilvægt að horfa fram á veginn. Ég vona að okkur beri gæfa til þess að halda áfram því góða samstarfi sem hefur verið í Austur-Húnavatnssýslu.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.