Blanda og gamla Blöndubrúin í bleikum bjarma

Í bleikum bjarma. MYND: RÓBERT DANÍEL JÓNSSON
Í bleikum bjarma. MYND: RÓBERT DANÍEL JÓNSSON

Sagt er frá því á vef Blönduóss að gamla Blöndubrúin, sem nú er göngubrú yfir í Hrútey, er lýst með bleikum lit þessa dagana til stuðnings árvekniátaki vegna krabbameins hjá konum. Eru gestir og gangandi hvattir til að gera sér ferð í Hrútey þegar farið er að dimma og líta brúnna augum en góð bifreiðastæði eru við árbakkann þegar komið er til Blönduóss að norðan, örskammt frá N1.

Á vefnum er minnt á að Hrútey er tilvalinn útivistar- og áningarstaður. „Þar eru góðir göngustígar og rjóður með bekkjum og borðum. Þá er stutt til sjávar frá Hrútey eftir göngustíg meðfram ánni. Gestum er bent á að fara um með sérstakri gát við árbakkana.

Hrútey er umlukin jökulánni Blöndu. Hrútey skartar fjölbreyttum gróðri. Mest ber á trjágróðri og lyngmóum. Birki og stafafura er áberandi en ýmsar aðrar trjátegundir þrífast ágætlega. Fjöldamargar aðrar tegundir plantna eru í eyjunni. Fuglalíf er auðugt og gæsin á griðland þar ásamt öðrum fuglum.“

Svæðið er opið almenningi en fylgja ber reglum um umferð og afnot. Hægt er að skoða fleiri myndir af gömlu Blöndubrúnni í bleikum bjarma á Facebook-síðu Róberts Daníels Jónssonar sem tók myndina sem fylgir fréttinni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir