„Blaðið birtist fyrst á óvenju miklum átakatímum,“ segir Ingi Heiðmar, dyggur áskrifandi Feykis í 40 ár
Í tilefni afmælistímamóta Feykis var ákveðið að hafa upp á einum áskrifanda sem fengið hefur blaðið inn um lúguna frá upphafi og kom þá nafn Inga Heiðmars Jónssonar upp í hugann en hann getur hæglega talist fulltrúi Húnvetninga, Skagfirðinga og brottfluttra í lesendahóp blaðsins. "Ég álít að þetta blað hafi skilað íbúunum drjúgum ávinningi," segir hann.
Ingi Heiðmar er frá Ártúnum í Austur-Húnavatnssýslu, óx þar upp við Blöndunið, orgelspil, sögur af gamla kórnum, en lauk BA prófi sínu í sagnfræði frá HÍ 1972. Var hann þá farinn að kenna hjá Skagfirðingum – á Steinsstöðum og í Varmahlíð – en flutti suður til borgarinnar 1985 og fékk þar fljótlega organistastarf hjá fyrrum Blönduhlíðarklerki, sr. Þórsteini sem þá var farinn að þjóna fríkirkjusókn í höfuðborginni. Þremur árum síðar flutti fjölskyldan að Flúðum þar sem Ingi Heiðmar segir þau hafa átt sjö góð ár með Hrunamönnum en síðar enn fleiri með Flóamönnum og Selfossbúum.
„Ég hef keypt Feyki alla tíð og átti kunningsskap við tvo frumkvöðla þar, þá sr. Hjálmar Jónsson, nýfluttan á Krókinn frá okkur úr Svartárdalnum, einn af stofnendum blaðsins og ritstjórann fyrsta, Baldur Hafstað, sem var félagi minn og vinur úr íslenskudeildinni í háskólanum. Blaðið birtist fyrst á óvenju miklum átakatímum í héruðunum heima, Blöndudeilan var komin til sögunnar með tilheyrandi fundahöldum og flokkadráttum. En með nýja blaðinu kom vettvangur fyrir skrif og fréttir af fundum, tilboðum og loks samningum þegar orrahríðin var gengin yfir, virkjunin reist og lónið mikla, sem var stóra deiluefnið, lagði undir sig 57 ferkílómetra af úrvals graslendi.
Ég álít að þetta blað hafi skilað íbúunum drjúgum ávinningi, það hefur alltaf átt heimili á Sauðárkróki, fjölmennasta bæjarfélaginu, sem varð meira miðsvæðis í gamla kjördæminu okkar þegar Þverárfjallsvegi var lokið 2007. Strætóferðir um Þverárfjall hafa fært Krókinn enn nær kjarnanum. Húnvetningar hafa stundum átt blaðamann í hlutastarfi við útgáfuna en þeim sýslungunum mínum hefur stundum fundist þeir nokkuð afskiptir. Það er kunn saga í samfélögum sem dreifast um víðáttur á borð við þau sem breiða úr sér kringum Húnaflóa og Skagafjörð.“
Í 3. tölublaði Feykis fyrsta árgangs má finna grein eftir Inga Heiðmar þar sem hann svarar Grími Gíslasyni og Ragnari Arnalds vegna Blöndudeilunnar sem þá var áberandi í þjóðfélagsumræðunni. Bar grein Inga Heiðmars fyrirsögnina „Blöndungum“ svarað og hefst á þessum orðum: „Gott þykir mér framtak ykkar að koma út blaði í þessum áttungi okkar og vona ég að til góðs verði. Hins vegar hefðirðu gjarnan mátt að hlífa okkur við því að heyra Blöndungssuðið enn einu sinni í þessum áróðursgreinum þeirra Gríms Gíslasonar og Ragnars Arnalds í síðasta blaði.“
Já, menn fögnuðu því að kominn væri vettvangur með tilkomu Feykis til að koma hugmyndum sínum á framfæri og ekki síður gagnrýni á menn og málefni. Þá tók Ingi Heiðmar viðtal við Tómas Gunnar Sæmundsson frá Hrútatungu í tilefni nýútkominnar bókar þess síðarnefnda Genginn ævivegur og birtist í 10. tbl. Feykis árið 2019. Stutt er síðan Gunnar kvaddi þetta jarðlíf en hann lést 18. mars sl.
Áður birst í 15. tbl. Feykis 2021
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.