Bændur gerðir útverðir þjóðarinnar og styrktir til landgræðslu, skjólbelta- og skógræktar

Flokkur Guðmundar Franklíns Jónssonar, Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn, hefur opnað heimasíðu, x-o.is, en þar er hægt að finna ítarlega stefnuskrá flokksins í 66 liðum auk tveggja glærukynninga með Landbúnaðarstefnu og Sjávarútvegsstefnu flokksins.

Landbúnaður
Teknir upp sérstakir byggðastyrkir beint á lögbýli sem skapa a.m.k. eitt ársverk.
Garðyrkjubændur fái raforku á stóriðjuverði.
Endurskoða tollasamninginn við ESB og hætta innflutningi á ófrosnum kjötvörum. Litið væri á það sem part af framlagi Íslendinga í baráttunni gegn útblæstri gróðurhúsalofttegunda.Bændur gerðir útverðir þjóðarinnar og styrktir til landgræðslu, skjólbelta- og skógræktar til bindingar hættulegra gróðurhúsalofttegunda.
Kaupendum bújarða verði gert skylt að búa á jörðum sínum, halda þeim í rækt og greiða skatta í byggðarlaginu og eiga þar lögheimili - danska leiðin.

Sjávarútvegur
Burt með ríkisstyrki úr sjávarútvegi.
86% þjóðarinnar eru á móti núverandi kvótakerfi og vill breytingar.
Beint frá báti, frelsi til athafna.
Fullt markaðsverð fyrir aflaheimildir.
Tryggja áframhaldandi dreifða byggð og atvinnutækifæri í landinu.
Handfæraveiðar í strandveiðikerfi verði frjálsar öllum íslenskum ríkisborgurum fyrir báta 10 metra að lengd og styttri.
Handfæraveiðar verði heimilaðar frá sumardeginum fyrsta til fyrsta vetrardags.
Makrílveiðar verði frjálsar innan 10 sjómílna fyrir smábáta að 15 metrum.

Í tilkynningu frá flokknum kemur fram að í málefnaskrá flokksins sé lögð áhersla á að styrkja grunnstoðir samfélagsins þar sem einstaklingurinn nýtur frelsis til athafna í gegnum sköpunarkraft og með frumkvæði að vopni. „Við viljum efla beint lýðræði og nota þjóðaratkvæðagreiðslur í mikilvægum málefnum. Einstaklingsfrelsi er lykillinn að gæfu þjóðarinnar ásamt lágum sköttum, friðsömum og haftalausum milliríkjaviðskiptum, frjálsri samkeppni og sem minnstum ríkisafskiptum. Fjárfestum, framkvæmum og framleiðum,“ segir á xo.is.

Meðal þeirra mála sem Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn vill leggja áherslu á er:

Persónuafsláttur hækkaður í 100.000 kr. á kjörtímabilinu og skattleysismörk verði um 300.000 kr.
Öllum fyrirtækjum í ferðaþjónustu boðin "Kóviðspyrna", skattar og gjöld felld niður næstu misseri, lánum umpakkað og atvinnuleysi útrýmt úr greininni. Stór og myndarleg ferðaávísun send á alla landsmenn en gríðarlegir vaxtamöguleikar eru í ferðaþjónustunni. Eldgosið á Reykjanesi er einstakt tækifæri og kallar á sérstaka uppbyggingu og jafnvel nýjan eldfjallaþjóðgarð. Heilsutengd ferðaþjónusta er einnig að ryðja sér til rúms með nýjum heilsulindum, böðum og sundlaugum um land allt.
Kaup á bújörðum auðjöfra og eða leppfyrirtækja þeirra verði stöðvuð og mönnum gert skylt að halda lögheimili á jörðum sínum, halda hlunnindajörðum vel við og borga skatta í sama héraði (danska leiðin).
Reykjavíkurflugvöll viljum við hafa áfram í Reykjavík. Má þar nýta ýmsar sniðugar hugmyndir við nauðsynlegar breytingar sem þurfa að fara fram í Vatnsmýrinni t.d. að lengja brautirnar út í sjó fram og byggja nýja flugstöð. Öryggi og þjónustu þarf að tryggja við landsbyggðina.
Landflutningar tryggja hraða í afhendingu vöru og þjónustu sem nútíminn krefst. Flokkurinn vill malbika fjölförnustu vegakafla Þjóðvegar 1 á næsta kjörtímabili. Lausnin við vegablæðingum og auknu umferðaröryggi er að malbika vegi sem bera mikinn umferðarþunga og þungaflutninga. Flýta þarf vegaframkvæmdum á Vestfjörðum til að tengja firðina betur við samgöngukerfi landsins.
Flokkurinn aðhyllist að tillögur stjórnlagaráðs verði notaðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá. Flokkurinn vill notast við þjóðfundafyrirkomulag á þessari vegferð þar sem þátttakendur eru valdir með slembiúrtaki. Flokkurinn vill tryggja fullveldi landsins í stjórnarskrá lýðveldisins. Þjóðin verði stjórnarskrárgjafinn.
Hefðbundnar orðuveitingar verði aflagðar. Þurrka verður út tildur og sýndarmennsku í opinbera geiranum. Íslendingar eru afkomendur bænda og sjómanna og við getum verið stolt af því. Orðu á sá skilið sem unnið hefur hetjudáð eða bjargað mannslífi.

Sjá nánar HÉR

 

  

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir