Auglýst eftir presti í Þingeyraklaustursprestakall
Húnahornið segir af því að biskup Íslands hafi auglýst eftir sóknarpresti í Þingeyraklaustursprestakalli í Húnavatns- og Skagafjarðarprófastsdæmi en það samanstendur af fimm sóknum; Auðkúlusókn, Blönduóssókn, Svínavatnssókn, Undirfellssókn og Þingeyrasókn. Undanfarið hefur Sr. Bryndís Valbjarnardóttir, sóknarprestur á Skagaströnd, sinnt þessu starfi í afleysingum.
Fram kemur á Húna.is að í prestakallinu er íbúafjöldi um 1.350 manns, þar af eru 916 16 ára og eldri í þjóðkirkjunni og börn yngri en 16 ára eru 248. Prestarnir í Húnavatnssýslu skipta með sér vaktsíma utan hefðbundins vinnutíma, viku í senn.
Prestaköllin tvö, Þingeyraklaustursprestakall og Skagastrandarprestakall, eru samstarfssvæði og fylgja því starfinu viðbótarskyldur við önnur prestaköll í prófastsdæminu, önnur prófastsdæmi, sem og við Þjóðkirkjuna, Biskupsstofu og önnur kirkjuleg stjórnvöld.
Á heimasíðu biskups eru nú auglýst fjögur störf til umsóknar sem telst vera óvenjulegt þar sem gilt hefur ráðningarbann hjá Þjóðkirkjunni en það rann út þann 1. janúar sl.
Umsóknafrestur er til miðnættis 24. janúar nk. en nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu kirkjunnar.
Heimild: Húni.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.