Áskoranir og tækifæri á óvissutímum

Unnur Valborg. AÐSEND MYND
Unnur Valborg. AÐSEND MYND

28. ársþing og fjórða haustþing Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra  var haldið föstudaginn 23. október með fjarfundi en þetta var í fyrsta skiptið sem þing samtakanna er haldið með þessum hætti og tókst framkvæmdin vel. Daginn áður stóð SSNV fyrir vefráðstefnu sem bar yfirskriftina Framtíð atvinnulífs á Norðurlandi vestra. Fyrirlesarar komu úr ýmsum áttum en allir áttu það sameiginlegt að ræða um þau tækifæri sem felast í landshlutanum, í landbúnaði, sjávarútvegi, ferðaþjónustu, nýsköpun og menningu svo fátt eitt sé talið. Feykir hafði samband við Unni Valborgu Hilmarsdóttur, framkvæmdastjóra SSNV, og lagði fyrir hana nokkrar spurningar.

Hvernig tókst til með ráðstefnu um framtíð atvinnulífs á Norðurlandi vestra? „Ráðstefnan fór fram í fjarfundi 22. október. Til hafði staðið að halda hana á Hótel Laugarbakka en vegna aðstæðna var ákveðið að færa hana á netið. Við þá ráðstöfun gafst tækifæri á því að fá fyrilesara víðar að en ella og voru erindi flutt úr nánast öllum landshlutum auk erinda frá Noregi og alla leið frá Saudi Arabíu. Aðsókn var góð en meðan á ráðstefnunni stóð fylgdust, þegar mest var, um 70 manns með og svo hafa fjölmargir horft á upptökuna sem er aðgengileg á Facebook síðu SSNV. Þetta tókst því afskaplega vel.“

Var eitthvað öðru fremur sem vakti athygli? „Erindin sem flutt voru á ráðstefnunni snertu á mörgum atvinnugreinum, nýsköpun, landbúnaði, menningu, ferðaþjónustu, sjávarútvegi og kvikmyndaiðnaði,“ segir Unnur Valborg. „Öll voru þessi erindi áhugaverð og í þeim öllum mátti finna tækifæri fyrir landshlutann. Ef á að nefna einhver einstaka erindi sem vöktu athygli má nefna þau tækifæri sem felast í hamprækt og komu fram í erindi Oddnýjar Önnu Björnsdóttur en það virðist ótrúlega margt hægt að vinna úr þessari mögnuðu plöntu og það sem meira er, hún virðist nokkuð harðger. Erindi dr. Þórs Sigfússonar um bláa hagkerfið vakti líka athygli en þar felast fjölmörg tækifæri og á svæðinu eru þegar til staðar innviðir til að nýta þau tækifæri.“

Var einhver niðurstaða, hvar liggja tækifærin í framtíðinni? „Ef ætti að segja að einhver niðurstaða hafi komið fram á ráðstefnunni má segja að hún hafi verið að á svæðinu felist mjög mörg tækifæri. Ef á að nefna einhver lykilorð sem standa upp úr erindum fyrirlesaranna þá væri það mikilvægi þess að nýta okkur sérstöðu svæðisins, samstarf innan svæðis, sjálfbærni og rekjanleika. Allt þetta var eins og rauður þráður í gegnum erindin. Nýsköpun bar mjög oft á góma og gaman að segja frá því að í september hóf Kolfinna Kristínardóttir störf hjá SSNV en hún mun einbeita sér að málum er tengjast nýsköpun með einum eða öðrum hætti. Með ráðingu hennar eru samtökin að bregðast við breyttu landslagi í stuðningi við nýsköpun á landsbyggðinni.

Það var líka athyglisvert að sjá að það sem fram kom á ráðstefnunni rímar mjög vel við bæði Sóknaráætlun landshlutans sem unnin var í fyrra sem og sviðsmyndir atvinnulífs svæðisins næstu 40 árin sem kynnt var á þessu ári. Aukin fullvinnsla, sjálfbærni og nýsköpun, efling menningarstarf og aukin miðlun þess, samstarf innan svæðis og sérstaða þess svo fátt eitt sé talið. Bæði þessi plögg voru unnin í miklu samráði við íbúa svæðisins og ánægjulegt að sjá að þau virðast ná utan um þau tækfæri sem hér felast. Nú er það okkar allra, íbúanna á svæðinu, að grípa þessi tækifæri og við hjá SSNV erum til þjónustu reiðubúin til að aðstoða við það.“

Hvað var helst í brennidepli á ársþingi SSNV að þessu sinni? „Ársþingið var með hefðbundnu sniði og þó ekki þar sem það fór fram í fjarfundi eins og ráðstefnan. Það var líka óvenjulegt að ársþing og haustþing voru haldin samhliða en ársþinginu sem vera átti í apríl var frestað vegna ástandsins. Þrátt fyrir þessa óvenjulegu framkvæmd voru þingstörfin sjálf hefðbundin, þ.m.t. kjör nýrrar stjórnar. Nýja stjórn skipa Ingibjörg Huld Þórðardóttir, formaður, Sveitarfélaginu Skagafirði, Álfhildur Leifsdóttir, Sveitarfélag-inu Skagafirði, Halldór Gunnar Ólafsson, Sveitarfélaginu Skagaströnd, Anna Margrét Sigurðardóttir, Blönduósbæ og Þorleifur Karl Eggertsson, Húnaþingi vestra.“ 

Á þinginu voru venju samkvæmt flutt erindi gesta en að þessu sinni voru það Sigurður Ingi Jóhannsson, ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála, Haraldur Benediktsson, 1. þingmaður kjördæmisins og Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. Unnur segir að öll hafi þau komið inn á þær áskoranir sem sveitarfélögin standa frammi fyrir á þessum óvissutímum en líka þau tæki-færi sem eru til staðar.

Hver hafa verið helstu verkefni SSNV frá því að COVID-19 lét á sér kræla og hefur þetta verið lærdómsríkur tími? „Okkar helstu verkefni hafa sem fyrr snúið að stuðningi við styrkþega um framkvæmd verkefna, ráðgjöf til einstaklinga og fyrirtækja, aðstoð við styrkumsóknir og fleira því tengt. Í sumar voru skilgreind ein 14 átaksverkefni vegna áhrifa Covid 19 sem bættust við þau áhersluverkefni sem þegar höfðu verið skilgreind og hefur nokkur tími farið í að vinna í þeim. Jafnframt hafa samtökin unnið að því að taka saman þau verkefni sem hægt væri að ráðast í í landshlutanum til að bregðast við því ástandi sem nú er uppi en eins og kunnugt er hafa stjórnvöld kynnt að auknu fjármagni verði varið í fjárfestingaverkefni á komandi árum til að halda uppi atvinnustigi og hagvexti í landinu. Sambærileg samantekt, en um nauðsynleg innviðaverkefni, var jafnframt unnin í kjölfar óveðursins í lok síðasta árs og er ánægjulegt að sjá að nokkur þeirra hafa þegar verið unnin, eru í vinnslu eða komin á dagskrá þó betur megi ef duga skal. Þetta hefur því svo sannarlega verið lærdómsríkur tími sem hefur í mínum huga vakið bjartsýni um að komandi ár muni skila mikilvægum úrbótum inn á svæðið. Við munum í samstarfi við sveitar-félögin í það minnsta gera það sem í okkar valdi stendur til að svo megi verða.“

Unnur Valborg segir að áherslur samtakanna hafa verið að skerpast undanfarin misseri með aukinni sérhæfingu þeirra ráðgjafa sem hjá þeim starfa. „Nýr ráðgjafi með áherslu á nýsköpun eins og nefnt var hér að framan er til marks um þá sérhæfingu. Til viðbótar hóf störf í kófinu verkefnisstjóri fjárfestinga, Magnús Jónsson, en hann  hefur það hlutverk að laða stærri atvinnuskapandi fjárfestingarverkefni inn í landshlutann. Auk þeirra eru þeir ráðgjafar sem fyrir voru með sína sérhæfingu, Davíð Jóhannsson með áherslu á ferðamál, Sveinbjörg Rut Pétursdóttir með áherslu á almenna rekstrarráðgjöf og stafræna framþróun og Ingibergur Guðmundsson heldur utan um Sóknaráætlun landshlutans auk þess að veita ráðgjöf um verkefni sem tengjast menningarmálum,“ segir hún. 

„Við erum því orðin í stakk búin til að veita ráðgjöf á víðtækari sviðum en áður með það að markmiði að styðja uppbyggingu í landshlutanum okkar.“

- - - -

Viðtalið birtist fyrst í 41. tölublaði Feykis 28. október 2020

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir