Arion lokar á Blönduósi

"Einu sinni var," skrifar Valdimar Guðmannsson við mynd sína af húsnæði Arionbankans á Facebooksíðu sinni í gær en mikil óánægja er meðal íbúa Blönduóss með ákvörðun bankans að loka útibúinu á staðnum.

Í gær lokaði útibú Arion banka á Blönduósi svo héðan í frá mun engin bankaþjónusta verða í boði í bænum í fyrsta skipti í 130 ár. Eins og greint hefur verið frá í fréttum var það gefið út að sameina ætti útibú bankans á Blönduósi við útibúið á Sauðárkróki.

Á Húni.is kemur fram að Félag eldri borgara í Húnaþingi og sveitarstjórnir í Austur-Húnavatnssýslu hafi mótmælt harðlega ákvörðun bankans og lýst yfir miklum vonbrigðum með skerta fjármálaþjónustu við íbúa, fyrirtæki og ferðamenn.

Áfram verður alhliða hraðbanki á Blönduósi þar sem hægt verður að taka út og leggja inn seðla greiða reikninga, enduropna PIN númer og millifæra. Hraðbankinn verður fyrst um sinn staðsettur í núverandi húsnæði að Húnabraut 5.

Valdimar Hermannsson sagði í hádegisfréttum RÚV í dag þetta mikil vonbrigði: „Það er alveg ótækt og mikil vonbrigði eins og við höfum líst yfir og bókað um í sveitarstjórn að hér skuli ekki vera bankaþjónusta eða fjármálastofnun nema í gegnum sjálfsala.“ Hann segir sveitarfélagið muni að öllum líkindum færa viðskipti sín í annan banka. „Við erum þegar komin í viðræður við aðra fjármálastofnun með það og verður væntanlega bókað um það á sveitarstjórnarfundi nk. þriðjudag.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir