Árið 2021: Þvottaefni í púðum fyrir þvottavélar – ætti ekki að nota í uppþvottavélar
Nú skýst Feykir með lesendur sína í uppgjörsleiðangur yfir snjóþakta Öxnadalsheiði og nemur staðar á Öngulsstöðum í Eyjafjarðarsveit hvar fyrrum prófarkalesari blaðsins, Karl Jónsson, unir hag sínum í góðum félagsskap. Kalli, sem er uppalinn á Hólaveginum á Króknum, starfar nú sem verkefnastjóri á Akureyri, hefur góðan smekk á íþróttum og er í nautsmerkinu. Árið í þremur orðum? Allt á uppleið.
Hver er maður ársins? Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir fyrir að standa í lappirnar gagnvart þessu fólki sem þykist endalaust vita betur.
Hver var uppgötvun ársins? Þvottaefni í púðum fyrir þvottavélar, ætti ekki að nota í uppþvottavélar.
Hvað var lag ársins? Auðvelt - Don’t shut me down með ABBA.
Hvað var broslegast á árinu? Margt sem ég gerði aðallega óafvitandi var broslegt. Til dæmis þegar ég var veikur heima og sendi erlendum birgja skilaboð um að ég gæti ekki talað við hann þar sem ég væri “….dick at home:” Fuuult af svona tilvikum sem komu upp öðrum til gleði og ánægju.
Hvers heldurðu að þú eigir eftir að sakna frá árinu 2021 – eða ekki? Sakna einskis held ég, né heldur ekki einskis.
Varp ársins? Fílaði The Ranch. Skipti yfir á Bylgjuna af Rás 2 á árinu, morgunþátturinn og síðdegisþátturinn þar eru flottir.
Hverju viltu skella á brennuna og hvers vegna? Auðvitað segir maður Covid, en ég held að það kvikni ekki í því helvíti.
Hver var helsta lexía ársins? Fyrir utan þetta með þvottavélapúðana að þá lærði ég svakalega mikið af því að greinast með ADHD, það setti lífshlaupið í aðeins meira samhengi en áður.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.