Árið 2021: Á ekki eftir að sakna þess að standa í flutningum
Kristín Sigurrós Einarsdóttir sprettur upp að morgni annars dags jóla til að svara ársuppgjörinu. Eða þannig. Stína hefur víða komið við síðan hún flutti í Skagafjörðinn fyrir einhverjum árum, meira að segja unnið á Feyki. Nú býr hún á Hofsósi en á ættir að reka í Lundarreykjadalinn í Borgarfirði. Árinu lýsir hún með eftirfarandi b-orðum: „Breytingar, bjartsýni og bugun.“
Stína skipti um starfsvettvang í haust, lagði safnvörðinn á hilluna og hélt heim að Hólum þar sem hún starfar sem þjónustufulltrúi við Háskólann og í afleysingum á kennsluskrifstofu þar. „Auk þess eiginkona, móðir, amma og rek fyrirtækið Söguskjóðuna sem sérhæfir sig í leiðsögn á Norðurlandi vestra,“ segir hún og misnotar aðstöðu sína til að plögga dulítið í lok árs. Stína er hrútur í skóm númer rúmlega 42.
Hver er maður ársins? Eiginmaðurinn sem lét það eftir mér að kaupa draumahúsið á miðjum aldri.
Hver var uppgötvun ársins? Náttúrufegurðin í Kelduhverfi.
Hvað var lag ársins? Desember lagið hans Binna Rögnvalds, flutt af frábærri tengdadóttur.
Hvað var broslegast á árinu? Samverustund okkar systkina og mömmu í Lundarreykjadal í haust. Held ég hafi hlegið mest á árinu þá helgi.
Hvers heldurðu að þú eigir eftir að sakna frá árinu 2021 – eða ekki? Á eftir að sakna yngsta sonarins sem verður í fyrsta sinn ekki heima á aðfangadagskvöld. Á ekki eftir að sakna þess að standa í flutningum.
Varp ársins? Hlaðvarp Héraðsskjalasafnsins.
Hverju viltu skella á brennuna og hvers vegna? Öllu sem ég þarf ekki að nota úr geymslunni. Vegna þess að ég á ennþá of mikið af dóti þrátt fyrir umfangsmikla grisjun við síðustu flutninga.
Hver var helsta lexía ársins? Get ekki gert upp á milli Svo lengi lærir sem lifir og Fátt er svo með öllu illt, að eigi boði nokkuð gott.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.