Ámundakinn hagnaðist um 11,7 milljónir á milli ára

Frá aðalfundinum 5. júní. Ljósmynd: Pétur Grétarsson
Frá aðalfundinum 5. júní. Ljósmynd: Pétur Grétarsson

Aðalfundur Ámundakinnar ehf. var haldinn föstudaginn 5. júní síðastliðinn. Á dagskrá fundarins voru venjuleg aðalfundarstörf, þar á meðal samþykkt ársreiknings en árið 2019 var 16. starfsár félagsins. Samkvæmt ársreikningi nam hagnaður félagsins 11,7 milljónum króna samanborið við 636 þúsund krónur árið 2018. Betri afkoma skýrist helst af fleiri leigjendum, sameiningu og batnandi afkomu hlutdeildarfélaga. Leigutekjur námu rúmum 112 milljónum og jukust um 44% milli ára.

Rekstrargjöld jukust um 47% milli ára og eigið fé félagsins var í árslok 2019 samtals 420,5 milljónir og jókst um 4% milli ára. Heildareignir námu um 1.110 milljónum króna og jukust um 13,6% milli ára. Eigendahópur Ámundakinnar breyttist lítið á síðasta ári og var stjórn félagsins endurkjörin á aðalfundinum. Hana skipa þau Jón Gíslason formaður, Pétur Grétarsson varaformaður og Rannveig Lena Gísladóttir ritari.

Á fundinum fór Jóhannes Torfason, framkvæmdastjóri Ámundakinnar, yfir það helsta í starfsemi félagsins á síðasta ári. Í máli hans kom fram að húseignir félagsins eru samtals um 12 þúsund fermetrar að flatarmáli og fastir leigjendur 18 en á næstunni mun þeim fjölga um fjóra til sex. „Þegar horft er til baka og reynt að leggja mat á starf og árangur félagsins er ljóst að snertifletir þess við samfélagið eru margir. Ný hús og vinnustaðir  eru hinn augljósi vottur, en einnig bein aðkoma að fyrirtækjum. Umsvifin hafa líka treyst stoðir annarra fyrirtækja," sagði Jóhannes en framtíðarstefna Ámundakinnar er að vera bakhjarl og hvati til að efla atvinnu- og mannlíf í héraðinu.

Þeir sem vilja kynna sér efni fundarins frekar er bent á ítarlegri frétt Húnahornsins.

/SHV

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir