Ákvörðun sóttvarnalæknis um einangrun staðfest fyrir dómi
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur staðfest ákvörðun sóttvarnalæknis um einangrun fimm einstaklinga vegna smita af völdum Covid. Samkvæmt upplýsingum frá embætti landlæknis er þetta í þriðja sinn sem látið er reyna á lögmæti ákvörðunar sóttvarnalæknis um einangrun fyrir dómi, segir á heimasíðu stjórnarráðsins.
Þar kemur ennfremur fram að Héraðsdómur Reykjavíkur hafi einnig staðfest ákvörðun sóttvarnalæknis um einangrun einstaklings með úrskurði 22. október 2020 og sömuleiðis í sambærilegu máli með úrskurði 13. apríl síðastliðinn.
„Dómstólar hafa einnig fjallað um mál einstaklinga sem mótmælt hafa ákvörðun sóttvarnalæknis um sóttkví þeirra. Tíu slík mál hafa farið fyrir héraðsdóm, síðast var úrskurðað í gær, og í öllum tilvikum hafa ákvarðanir sóttvarnalæknis verið staðfestar. Þremur þeirra mála var skotið til Landsréttar sem staðfesti úrskurði héraðsdóms í öllum tilvikum. Auk þessa voru kveðnir upp dómsúrskurðir síðastliðið vor þar sem ekki var talin lagastoð fyrir því að skylda einstaklinga til að dvelja í sóttkví í farsóttarhúsi. Í þeim málum var ekki ágreiningur um að viðkomandi væri skylt að dvelja í sóttkví í heimahúsi.“
Sjá nánar á stjornarradid.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.