Af hverju er heilagt kl. 18 á aðfangadag?

Í dagatali nútímans er hinn eiginlegi jóladagur 25. desember en víða stendur hátíðin yfir frá 24. desember til 6. janúar, segir á WikiPedia. Mynd: PF.
Í dagatali nútímans er hinn eiginlegi jóladagur 25. desember en víða stendur hátíðin yfir frá 24. desember til 6. janúar, segir á WikiPedia. Mynd: PF.

Margir hafa velt því fyrir sér af hverju jólin hefjast hjá okkur Íslendingum, sem og öðrum Norðurlandabúum, á aðfangadag en víðast hvar í heiminum daginn eftir eða þann 25. desember. Skýringuna er m.a. að finna á Vísindavefnum en þar segir að til forna hafi nýr dagur hafist um miðjan aftan, það er kl. 18 og hefst því jóladagur klukkan sex síðdegis á aðfangadag.

Á Vísindavefnum segir: „Fæðingarhátíð Jesú Krists, jólin, er haldin 25. desember. Undirbúningur hátíðahaldsins er aðventan eða jólafastan og lokadagur hennar, 24. desember, nefnist hjá okkur aðfangadagur jóla. Nafnið er gagnsætt. Þá skal undirbúningi lokið og aðföng öll komin til hátíðahaldsins. Helgin hefst síðan um miðjan aftan eða kl. 18. Þá er orðið heilagt og í hönd fer jólanóttin.

Í þessu fylgjum við Íslendingar fornum sið. Helgidaga- og hátíðahald kristinna manna studdist upprunalega við gyðinglegt tímatal, en hjá þeim hefst dagurinn við sólsetur. Þetta kemur fram í sköpunarsögunni þar sem segir um hvern dag: „Það varð kveld og það varð morgunn ...“ Utan gyðinglegs landsvæðis var hins vegar ekki miðað við sólsetur heldur við miðaftan. Þetta er í fullu gildi hjá okkur um jólin. Um miðaftan 24. desember er orðið heilagt, jólin komin með aftansöngnum í kirkjunum, 25. desember runnin upp. Að loknum aftansöng hefst aðalveisla jólanna og eftir það eru pakkarnir opnaðir. Að fornu var aðalmessa jólanna um miðnættið eins og fram kemur í mörgum íslenskum þjóðsögum og hefur sá siður víða verið tekinn upp að nýju í þjóðkirkjunni okkar.“

Sjá nánar HÉR

Hér er hægt að nálgast fróðleik um jólin á WikiPedia

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir